HalldóraÞað er margt gott í Hrafnagilsskóla. Að sjálfsögðu er ýmislegt sem betur mætti fara. Það gæti orðið erfitt og kostnaðarsamt að gera þær breytingar sem þörf er á.

Það sem mér finnst vera stærsti gallinn við skólabygginguna er að skólastofur eru undir íþróttahúsinu. Það getur verið erfitt að einbeita sér í skólanum þegar maður heyrir stapp og annan hávaða frá íþróttahúsinu. Best væri að byggja við skólahúsnæðið til þess að bæta þetta. En það er dýrt og ég efast um að það verði gert á næstu árum.

Mér finnst líka kominn tími á að skipta út húsgögnum á unglingastigi. Stólarnir og borðin eru orðin gömul, frekar lúin og óþægileg.  Áklæðin á stólunum eru bæði skítug og slitin. Borðplötur útkrassaðar og sóðalegar og borðin öll í sömu hæð. Best væri að vera með stillanleg borð og stóla til þess að mæta þörfum allra.

Hvað námsgreinarnar varðar þá mætti breyta ýmsu þar. Mér finnst eðlilegra að nemendur fengju að velja um norrænt tungumál, þá meina ég að við fengjum að velja hvort við lærum dönsku, norsku, sænsku eða eitthvað annað. Mér finnst það sanngjarnara fyrir nemendurna, einnig myndi ég vilja hafa kost á að læra t.d. frönsku eða þýsku.

Eitt er það sem mér finnst að mætti koma með á unglingastigið. Það er vatnsbrunnur eins og sá sem er hjá íþróttahúsinu. Ástæðan fyrir því að ég vil það er vegna þess að drykkjarvatnið úr krönunum er vont. Væri það ekki hentugra að nemendurnir gætu labbað fram á gang í stað þess að fara upp til að fá sér vatnssopa?

Það síðasta sem ég vill tala um er aðbúnaðurinn í tölvustofunni. Stofan er niðurgrafin með lítið af gluggum og loftið oft þungt þar inni. Borðtölvurnar eru ágætar en þó mætti kaupa fleiri spjaldtölvur. Heyrnartólum hefur farið sífellt fækkandi, þau hafa hreinlega eyðilagst. Þau eru heldur ekki mjög sterk né góð og vantar því sárlega ný.

Eins og ég hef sagt er ýmislegt sem er hægt að bæta. Ef þessar breytingar yrðu gerðar þá myndi ég segja að skólinn væri fullkominn. Það er lítið sem þyrfti að bæta gagnvart skólastarfinu en þessir aðal þættir sem ég nefndi finnst mér skipta máli. Skólabygginguna mætti laga með tímanum en ef við erum raunsæ þá mun það ekki gerast á næstunni, En eins og með stólana, borðin og þessi smáatriði það mætti laga og bæta sem fyrst ef við hugsum til allra nemenda.

Halldóra Snorradóttir
10. bekk