Hlutverk

Hrafnagilsskóli hefur það hlutverk að veita menntun á grunnskólastigi eins og hún gerist best á hverjum tíma, að virðing og vingjarnleiki einkenni öll samskipti og að rækta manngildi.

Gildi

Hrafnagilsskóli hefur fjögur megin gildi að leiðarljósi í starfi sínu. Þau eru fagmennska, dyggðir, skilningur og það að gera allt framúrskarandi vel.

Fagmennska

Hrafnagilsskóli vinnur markvisst að því samkvæmt yfirlýstum aðferðum að hver nemandi fái kennslu við hæfi, að rekstur sé hagkvæmur og innan heimilda og að stjórnun skólans grundvallist á gegnsæjum starfsháttum.

Dyggðir

Skólastarfið hvílir á virðingu fyrir öllum, ábyrgri hegðun, umhyggju og vingjarnleika í samskiptum.

Skilningur

Skilningur er grundvallarviðhorf í skólasamfélaginu með það að leiðarljósi að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur.

Að gera allt framúrskarandi vel

Umbótamiðuð vinnubrögð einkenna öll störf og unnið er samkvæmt skriflegum áætlunum.

Framtíðarsýn

Grunnskóli er einn af hornsteinum hvers samfélags. Hrafnagilsskóli vill hafa farsæl mótandi áhrif á samfélagið og að litið verði með trausti til alls þess sem þar er gert. Nám og kennsla er þungamiðja skólastarfs og því mikilvægt að fagfólk komi að öllum störfum sem þar að lúta. Það er metnaðarmál Hrafnagilsskóla að nemendur fái góða menntun, að skólinn sé eftirsóknarverður vinnustaður, að hann sé þekktur fyrir fagmennsku, áreiðanleika og árangur.

 

Gæðahringir

Hornsteinar menntunar

Gæðahringur er annað nafn fyrir bekkjarfund. Við kjósum að nota nafnið gæðahringur þar sem það vísar bæði til forms og markmiða með þeim. Byggt er á hugmyndum úr bókunum Educating for Character eftir Thomas Lickona og Circle Time, a practical book of Circle Time lesson plan.

Markmið gæðahringja geta meðal annars verið eftirfarandi

 • að auka kynni nemenda
 • að bæta samskipti nemenda innan bekkja
 • að byggja upp jákvæðan bekkjaranda
 • að setja sameiginlegar reglur
 • að setja sameiginleg markmið í námi
 • að hvetja til árangurs í námi
 • að fagna góðum árangri, hrósa
 • að jafna ágreining
 • að skipuleggja eitthvað í sameiningu
 • að æfa nemendur í að tjá sig
 • að ígrunda og meta námið
 • að ræða samviskuspurningar

Reglur í gæðahring

 • Allir sitja í hring, helst á stólum í sinni stofu og geta náð augnsambandi.
 • Allir fara eftir ákveðnum reglum sem ákveðnar eru; t.d. að rétta upp hönd til að fá orðið, ekki grípa fram í fyrir þeim sem hefur orðið. Kennarinn tekur þátt í hringnum, stjórnar honum en fer líka eftir reglunum sem gilda.
 • Umræðan fer hringinn, en það er leyfilegt að sitja hjá og segja pass.
 • Við virðum skoðanir annarra.
 • Við hrósum og sýnum jákvæðan áhuga.
 • Við endum gæðahring á jákvæðan hátt.

Undirbúningur kennara

 • Útbúa þarf skilti til að setja á hurðina. „Vinsamlega truflið ekki".
 • Kennari undirbýr gæðahring vel. Gott er að nota hlut, t.d. stein, sem látinn er ganga hjá yngri nemendum og þeim sem ekki eru vanir, hafa tilbúna hópeflisleiki, dæmisögu, tónlist eða hvað annað sem á að nota.
 • Hafa gæðahring fastan á vikustundaskránni.

Form gæðahrings

 1. Inngangur. Kennari rifjar upp reglur gæðahringsins.
 2. Hópeflisleikur.
 3. Setningar með staðlaðri byrjun, t.d. mér líður best þegar… Allir fá tækifæri til að tjá sig.
 4. Opnar umræður. Rætt um eitthvert valið efni, vandamál leyst eða markmið sett.
 5. Umræðum lokað. Hvernig leið ykkur? Hvað var gott við þennan gæðahring? Þakkað fyrir góðan gæðahring, framkomu, uppástungur, liðna viku o.s.frv. Einnig er hægt að loka hring með tónlist, rólegum leikjum t.d. kreista hendur, myndastyttuleik, hugsa um það sem manni finnst gott að borða, hlusta á umhverfið o.s.frv..

 

Dyggðir

Fræðsla um dyggðir og gildi felur í sér að börnum er innrætt virðing, góðvild og ábyrgð gagnvart sjálfum sér og öðrum. Slík uppfræðsla er undirstöðuatriði í þroska barnsins og menntun þess skilar ekki tilætluðum árangri án hennar. Siðræn gildi gæða verkin merkingu.

Ábyrgð, góðvild og virðing eru kjarni dyggðafræðslunnar í skólanum. Jafnframt eru aðrar dyggðir teknar til umfjöllunar, svo sem hjálpsemi, samvinna, heiðarleiki, kurteisi, réttlæti, vinátta og friður.

Markmið umfjöllunar og kennslu um dyggðir eru meðal annars eftirfarandi:

 • að vekja til umhugsunar um hvernig samskipti manna þurfa að byggjast á siðrænum gildum
 • að vekja með nemendum löngun til að láta gott af sér leiða í samfélagi sínu
 • að efla nemendur til að taka ábyrgð á orðum sínum og gerðum

Ýmsar leiðir eru farnar til að fjalla um dyggðir og tengja þær daglegu lífi. Notaðar eru sögur, dæmisögur og ljóð, nemendur fá ritunarverkefni og verkefni í leikrænni tjáningu. Þá gefast mörg tækifæri í gæðahring til umræðna um dyggðir og álitamál þeim tengd.

Starfsmenn nota tækifæri sem gefast til að vekja athygli á því þegar einhver sýnir dyggð í verki, hvort heldur er meðal nemenda eða atvik úr þjóðlífi eða fréttum. Þegar taka þarf á samskiptavanda eða óásættanlegri hegðun er gjarnan vísað í dyggðir og nemandinn fenginn til að finna lausn sem samræmist þeim. Þannig er reynt að samþætta vinnu með dyggðir öllu starfi skólans.

Í umfjöllun um dyggðir er oft vísað í tilvitnanir eða spakmæli sem lagt er út af á samverustundum eða í kennslu. Hér eru tenglar inn á skilgreiningar og tilvitnanir um virðingu, góðvild og ábyrgð.

 

Samverustundir

Tilgangur samverustunda er

– að efla samkennd meðal nemenda og starfsfólks
– að fjalla daglega um efni tengt mannkostamenntun
– að skapa vettvang til sameiginlegrar umræðu og tilkynninga
– að endurtekaka og rifja upp sameiginleg markmið skólastarfsins

Form

– nemendur ganga í röðum til og frá samverustund og sitja á gólfinu á meðan
samverustundum stendur
– við upphaf samverustundar kemur skólastjóri eða
aðstoðarskólastjóri fram fyrir hópinn og er þá ætlast til að
nemendur hafi hljóð án þess að þurfa að biðja um það
– stundin hefst á því að allir nemendur og starfsfólk fer með skólaheitið
– stjórnandi fjallar um efni sem tengist skólastefnunni, námi,
hegðun, samskiptum eða hverju því sem vert er að ræða
sameinlega
– síðan sér einn bekkur um flutning á efni, viku í senn
– þá tekur við samsöngur 2 – 3 lög
– í lokin er kyrrðarstund í 2 – 3 mínútur og leikin róleg klassísk
tónlist undir
– hver samverustund tekur um 20 mínútur
– á mánudagsmorgnum er þjóðsöngurinn sunginn í lok
samverustundar

 • Samverustundir eru daglega hjá 1.-7. bekk í upphafi skóladags, vikulega á unglingastigi og einu sinni í mánuði eru sameiginlegar samverustundir haldnar á sal skólans með öllum nemendum og starfsfólki

 

Skólaheit

Ég kem í skólann til að læra og nýta hæfileika mína til fulls.

 

Skólasýn

Allir hafa hið góða í sér og möguleikann til að verða  betri manneskjur.