Mynd fengin frá: http://is.wikipedia.org Íslenski hesturinn

Mynd fengin frá: http://is.wikipedia.org Íslenski hesturinn

Hrossasmölun fer fram ár hvert í Eyjafjarðarsveit. Hrossin eru sett upp á dal yfirleitt í kringum miðjan júní og eru sótt að hausti. Þá  fara reiðmenn upp á fjöll og inn á dali og smala. Í kringum allt þetta þarf góðan undirbúning. Ég ætla að fjalla nánar um seinustu hrossasmölun í Öngulsstaðahrepp.

Það þarf að vera gott skipulag til að allt gangi upp og ekkert fari úrskeiðis. Til þess eru gangnaforingjar og eiga þeir að sjá um skipulag og hafa stjórn á smalamönnum. Það getur reynst erfitt að hafa hemil á hrossastóðinu þegar til dæmis lítið er um aðhald og girðingar lélegar. Þess vegna þarf skipulag að vera gott og traust fyrirstaða.

Hrossasmölunin í ár (síðastliðinn 3. október) gekk brösulega þegar ofan af Garðsárdal var komið. Þegar hrossin komu í gegnum hliðið af Garðsárdalnum vestan megin áttu þau að fylgja veg alla leið niður að Þverárrétt. En undirbúningurinn hjá gangnaforingjunum var illa skipulagður og vantaði mannskap í fyrirstöðu til að beina stóðinu rétta leið eftir veginum.

Svo fór að hrossin tvístruðust í allar áttir og skiptust í marga minni hópa. Reiðmennirnir börðust við að reyna að leiða hrossin í rétta átt. Það gekk ekki vel og fóru þau í mörgum hópum ólíkar leiðir niður að Þverárrétt. Þetta reyndist smalamönnum mjög erfitt.  Einn hópur fór til dæmis niður hjá kúabúinu Garði og þaðan niður á veg þar sem bílar voru akandi og skapaðist þar mikil hætta. Malbikið er einnig mjög hættulegt því það er hált fyrir hrossin og mikil hætta á að hrossin detti á því. Það  er sérstaklega hættulegt ef hrossin eru á járnum því skeifurnar geta verið mjög sleipar á malbikinu. Þetta var því mjög slæmt fyrir reiðmenn sem þurftu að ríða á fleygiferð eftir malbiku til að ná stjórn á hrossastóðinu. Að lokum náðust allir hóparnir niður að Þverárrétt.

Þetta hefði ekki þurft að fara svona illa ef gangnaforingjar hefðu sinnt sýnu starfi betur. Það hefði ekki verið neitt mál að koma hrossunum beina leið niður að Þverárrétt ef mannskapur hefði verið tilbúinn í fyrirstöðu. Eins hefði mátt setja upp girðingar til að koma hrossunum rétta leið. Voru  margir ósáttir við hvernig þetta fór, sérstaklega í ljósi þess að þetta er annað eða þriðja árið sem sama vandamál kemur upp.

Að lokum óska ég þess að gangaforingjar gyrði sig í brók og skipuleggi næstu hrossasmölun betur og hugi að smáatriðum sem skipta samt svo miklu máli.

Jana Dröfn Sævarsdóttir,
10. bekk