Í Tónlistarskóla Eyjafjarðar er kennt á öll helstu hljóðfæri.

Samvinna er lykilatriði í öllu skólastarfi, órjúfanleg frá námi og kennslu, hún getur aukið fjölbreytni í starfi allra skóla og verið þeirra styrkur í námi nemenda, stuðlað að þroska einstaklinga og veitt nemendum aukin tækifæri til að láta ljós sitt skína.

Allir nemendur í Hrafnagilsskóla eiga þess kost á að sækja tónlistarnám í hljóðfæratímum á kennslutíma grunnskólans sem hluti af heildstæðum vinnudegi sínum í skólanum. Hljóðfæratímar eru settir í stundatöflu í samráði við umsjónarkennara nemandans og forráðamenn. Sumum nemendum hentar að koma alltaf á sama tíma, öðrum nemendum hentar að vera í hljóðfæratímum í rúllandi töflu svo þeir missi síður úr sömu kennslustundum í grunnskólanum. Einhverjum nemendum hentar betur að koma í tíma eftir að kennslu lýkur í grunnskólanum og einhverjir af yngri nemendum geta sótt tíma í Tónlistarskólanum úr Frístund.

Hljóðfærakennsla fyrir grunnskólanemendur í Eyjafjarðarsveit fer fram í húsnæði Tónlistarskóla Eyjafjarðar á skólasvæðinu; í húsnæði gömlu heimavistar Hrafnagilsskóla.
Tónlistarskólinn kemur reglulega að samverustundum í Hrafnagilsskóla ásamt aðkomu að árshátíðum grunnskólans, Degi íslenskrar tungu, samvinnu í þemavinnu og öðrum uppákomum í starfi Hrafnagilsskóla.

Nemendur í 4. bekk Hrafnagilsskóla sækja forskóla í Tónlistarskólanum 1×40 mínútur á viku. Þar fá nemendur að kynna sér ýmis hljóðfæri fram að áramótum en velja sér svo hljóðfæri í upphafi nýs árs og kynnast því betur út skólaárið. Forskólinn er hluti af stundaskrá grunnskólans.

Í Tónlistarskólanum er unnið með aðferðum leiðsagnarnáms þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat þar sem  frammistöðumat, sjálfsmat og stöðugt alhliða námsmat spila saman. Skólaárið skiptist í 4 lotur; í upphafi hverrar lotu setur nemandi í samstarfi við kennara sér námsmarkmið fyrir lotuna. Í lok hverrar lotu er námsmat þar sem metin eru þau atriði sem unnið var með samkvæmt markmiðum. Í lok hvers skólaárs er lokanámsmat. Markmið eru endurskoðuð reglulega í hverri lotu og allt skólaárið. Námsefni og kennsluaðferðir í tónlistarkennslu eru einstaklingsmiðaðar, engir tveir nemendur eru eins og þar eru óhefðbundnar leiðir, sveigjanleiki og lausnamiðuð nálgun höfð að leiðarljósi.
Nánari upplýsingar um Tónlistarskóla Eyjafjarðar, námið og kennslu er að finna á heimasíðu skólans.