Í grunnskólalögum segir að nemendur með annað móðurmál en íslensku eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Kennslan á að stefna að virku tvítyngi þessara nemenda, að þeir geti stundað nám í grunnskólum og tekið virkan þátt í íslensku samfélagi.
Gert er ráð fyrir að nemendur fylgi hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í tvö til fjögur ár. Eftir það fylgja þeir aðalnámskrá í íslensku samkvæmt aldurstengdum viðmiðum.
Í Hrafnagilsskóla heldur Lísbet Patrisía Gísladóttir grunnskólakennari utan um ÍSAT kennsluna. Nemendur hitta ÍSAT-kennara sinn einu sinni til tvisvar sinnum í viku og eru yfirleitt tveir til þrír saman, það fer eftir því á hvaða stigi hver og einn er staddur.
Þau viðfangsefni og það námsefni sem unnið er með fer eftir stöðu hvers nemanda og eru af fjölbreyttum toga. Þegar kennslan er skipulögð hefur ÍSAT-kennari til grundvallar hæfniviðmið fyrir erlenda nemendur samkvæmt Aðalnámskrá grunnskóla. Viðmiðin eru sett fram í þremur þrepum; fyrir byrjendur, lengra komna og lengst komna.
Umsjónarkennarar fá að fylgjast með framvindu námsins og er ÍSAT kennari í góðu samstarfi við þá sem og sérkennara.