Í Hrafnagilsskóla hefur um árabil verið lögð mikil áhersla á umhverfismennt og útinám en námið fer oftast fram á útikennslusvæði skólans sem ber nafnið Aldísarlundur. Lundurinn er í göngufæri frá skólanum og dregur nafn sitt af Aldísi Einarsdóttur frá Stokkahlöðum sem var mikil skógræktarkona og frumkvöðull á því sviði. Í Aldísarlundi er m.a. eldstæði, skýli og svið en Foreldrafélag Hrafnagilsskóla hefur í gegnum árin verið skólanum innan handar við uppbyggingu á þessari flottu aðstöðu.
Í gegnum umhverfismennt og útinám þjálfast nemendur í margvíslegri hæfni en úti reynir oft á aðra hæfni en innan veggja kennslustofunnar. Umhverfismennt byggir m.a. á grunnþáttum menntunar eins og þeim er lýst í Aðalnámskrá grunnskóla og má þar helst nefna sjálfbærni, heilbrigði og velferð og sköpun. Útinám er einnig tengt hæfniviðmiðum ólíkra námsgreina ásamt því að þjálfa svokallaða lykilhæfni. Lykilhæfni snýr að nemandanum sjálfum, dæmi um lykilhæfni er skapandi og gagnrýnin hugsun, sjálfstæði og samvinna.
Í hraða nútímans er mikilvægt að kenna nemendum að staldra við og gera jafnvel ekki neitt annað en að njóta augnabliksins. Verkefni sem nemendur fást við í umhverfismennt eru af ólíkum toga eins og að búa til smyrsl, byggja skýli, búa til skrímsli úr efnivið skógarins og oft fara nemendur í skipulagða og frjálsa leiki í skóginum. Það er alltaf vinsælt að elda undir berum himni. Á miðstigi hefur skapast sú hefð að nemendur verja heilum degi í skóginum þar sem þeir vinna að skipulögðum verkefnum, elda sér mat og njóta útivistar. Á yngsta stigi er umhverfismennt oft tengd við þemaverkefni nemenda eins og víkingaþema. Þá vinna nemendur með kennara að verkefnum um víkinga og lifa sig inn í þeirra heim.
Það er mikilvægt að kenna börnum að njóta náttúrunnar og öðlast þannig skilning á náttúruvernd og að ganga vel um umhverfi okkar. Ekki er hægt að kenna allt með bókum og fullorðnir eru mikilvægar fyrirmyndir í umhverfismennt eins og í öðru námi.