Góð mæting í skóla er viðamikill þáttur í farsælli skólagöngu og vellíðan barna og unglinga. Miklar fjarvistir úr skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og haft áhrif á líðan og námsárangur þeirra.
Allt skólasamfélagið (forsjáraðilar, nemendur, starfsfólk skóla) verða að bera virðingu fyrir mikilvægi skólasóknar alla 180 skóladaga nemenda í grunnskóla á hverju ári.
Í Hrafnagilsskóla eru fjarvistir og óstundvísi skráð í Mentor og þar birtist ástundun nemandans. Mikilvægt er að allir skrái samdægurs þegar nemendur mæta of seint eða ef um fjarvist er að ræða. Umsjónarkennari fylgist með mætingu nemenda sinna og ber ábyrgð á fyrstu þrepum í ferlinu. Ef nemandi kemur of seint fær hann 1 stig og ef hann er með fjarvist úr kennslustund fær hann 2 stig. Það telst of seint ef nemandi mætir eftir að allir aðrir eru komnir inn í kennslustofuna og fjarvist er skráð þegar 15 mínútur eru liðnar af kennslustundinni. Foreldrar fá ástundun barna sinna senda einu sinni í viku. Ef foreldrar gera ekki athugasemd strax við skráðar færslur skoðast þær samþykktar.
Viðbrögð skólans vegna fjarvista
- Ef nemandi er kominn með 10 stig ræðir umsjónarkennari við nemandann og sendir upplýsingar um skólasókn til foreldra og forráðamanna.
- Ef nemandi er kominn með 20 stig ræðir kennarinn aftur við nemandann, leitar orsaka fyrir vandanum og leitar lausna með honum. Haft er samband við foreldra.
- Ef nemandi er kominn með 30 stig eru foreldrar boðaðir á fund með umsjónarkennara og skólastjórnanda þar sem leitað er að lausnum til úrbóta.
- Ef ekki nást úrbætur taka stjórnendur og nemendaverndarráð skólans við málinu.
Leyfi nemenda í lengri tíma – umfram 2 skóladaga
Umsókn um lengra leyfi nemenda þarf að vera skriflegt og samþykkt af skólastjórnanda. Taka þarf fram hver ábyrgð foreldra á námi barnsins sé og með hvaða hætti þeir tryggi að nemandinn haldi námsáætlun skóla.