Uppfært 27. ágúst 2024

1. grein

Skólareglum er ætlað að skapa starfsanda sem byggir á vellíðan, gagnkvæmri virðingu og samábyrgð allra í skólasamfélaginu. Þær skulu tryggja vinnufrið í kennslustundum, almenn mannréttindi og öryggi í samskiptum. Skólareglur taka til alls skólasamfélagsins og er öllum skylt að fara eftir þeim. Þær eiga við á skólatíma, í skólahúsnæðinu, mötuneyti, á skólalóðinni, í skólabílum og á ferðum sem farnar eru á vegum skólans.

2. grein

Almenn umgengni skal einkennast af umburðarlyndi, kurteisi og snyrtimennsku og virðingu fyrir eignarréttinum. Líta ber á vinnufrið í skólastofunni sem sjálfsögð mannréttindi. Jafnrétti og lýðræði skal haft að leiðarljósi. Öllum ber að vera stundvís og ganga hljóðlega um húsakynni skólans.

3. grein

Tilkynna ber forföll samdægurs. Leyfi í 1-2 daga getur forráðamaður eða foreldri sótt um til umsjónarkennara eða ritara. Öll lengri leyfi þarf að sækja um skriflega til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra. Þegar nemendur koma í skólann að nýju eftir veikindi þurfa þeir að hafa heilsu til að taka þátt í öllum námsgreinum samkvæmt stundaskrá og til að vera úti í frímínútum. Nemendur sem fá undanþágu frá íþróttum eða því að fara út í frímínútur þurfa að hafa læknisvottorð.

4. grein

Nemendur 1.-7. bekkjar eiga að fara út í frímínútum. Engum nemanda er heimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma nema með leyfi starfsfólks. Virða ber eignarrétt íbúa svæðisins. Öllum nemendum ber að nota hjálm á hjóli, línuskautum, hlaupahjóli og öðrum samskonar leiktækjum. Nemendur mega koma á rafhlaupahjólum í skólann en notkun þeirra er ekki leyfð á skólatíma. Nemendum með tilskilin leyfi er heimilt að koma á skellinöðru/vélhjóli í skólann en ekki er heimilt að nota vélhjól á skólatíma.

5. grein

Stuðla ber að heilbrigðum lífsháttum varðandi neysluvenjur, útivist og hreyfingu. Óheimilt er að vera með tyggjó, sælgæti eða gosdrykki nema með sérstöku leyfi. Neysla hvers kyns vímuefna er með öllu óheimil, þar með talið rafrettur, nikótínpúðar, tóbak og áfengi. Farsímar eru með öllu óheimilir á skólatíma nema í sérstökum tilvikum. Ef símar eru notaðir á skólatíma án leyfis verða þeir teknir í vörslu starfsfólks þar til skóladegi lýkur. Sömu reglur gilda um snjallúr sem eru með innbyggðum símum. Við endurtekin brot á þessari reglu þurfa foreldrar eða forráðamenn að sækja síma/símaúr barna sinna í skólann.

6. grein

Gengið er að því sem gefnu að nemendur komi í skólann til að læra og skal allt skólastarf miðast við það. Nemendum ber að sinna heimanámi skv. fyrirmælum kennara. Nemendur skulu hlýða fyrirmælum starfsfólks skólans.


7. grein

Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum nemenda og fjármunum. Tryggingar skólans bæta skaða sem rekja má til vanrækslu af hálfu skólans. Í þeim tilvikum sem nemendur slasast og þurfa á slysadeild á skólatíma greiðir skólinn fyrir fyrstu komu þangað.


8. grein

Umsjónarkennarar skulu kynna nemendum sínum skólareglur Hrafnagilsskóla sem og forráðamönnum/foreldrum.


9. grein

Gæta skal hófs við beitingu viðurlaga við broti á skólareglum. Viðurlög skulu til þess fallin að hvetja nemendur til bættrar hegðunar.

Veita skal nemendum stuðning sýni þeir af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun og leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf í samstarfi við foreldra. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.


10. grein

Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Umsjónarkennari skal ávallt greina foreldri/forráðamanni við fyrsta tækifæri frá hegðunarfrávikum eða sjá til þess að það verði gert.