Við Hrafnagilsskóla er rekin skóladeild Bjargeyjar. Bjargey er ríkisrekið langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu og er staðsett á Laugalandi (fyrrum Laugalandsskóli). Bjargey er ætlað stúlkum og kynsegin á aldrinum 14 – 18 ára og rými er fyrir sex ungmenni í senn þar sem gert er ráð fyrir vistun í sex mánuði.

Á meðferðartímanum gefst ungmennunum kostur á að sækja sitt skyldunám til skóladeildar Bjargeyjar við Hrafnagilsskóla. Ungmennum á framhaldsskólaaldri gefst einnig kostur á námsaðstoð hjá kennara ef þeir sækja fjarnámsáfanga á meðferðartíma. Öllum gefst þeim kostur á að sækja verklega tíma við skólann, sem eru myndmennt, heimilisfræði og textílmennt. Á Bjargey er unnið út frá áfallamiðaðri nálgun og á sú nálgun margt sameiginlegt með agastefnu skólans, Jákvæðum aga, þar sem virðing, góðvild og festa eru í fyrirrúmi.