Skólanámskrá Hrafnagilsskóla 2024-2025
I hluti. Stefna og sýn Hrafnagilsskóla
Hrafnagilsskóli hefur það hlutverk að veita menntun á grunnskólastigi eins og hún gerist best á hverjum tíma, að virðing og vingjarnleiki einkenni öll samskipti og að rækta manngildi og dyggðir.
Dyggðir
Skólastarfið hvílir á virðingu fyrir öllum, ábyrgri hegðun, umhyggju og vingjarnleika í samskiptum. Kjarnadyggðir eru: Góðvild, ábyrgð og virðing.
Að gera allt framúrskarandi vel
Umbótamiðuð vinnubrögð einkenna öll störf og unnið er samkvæmt skriflegum áætlunum.
Fagmennska
Hrafnagilsskóli vinnur markvisst að því samkvæmt yfirlýstum aðferðum að hver nemandi fái kennslu við hæfi, að rekstur sé hagkvæmur og innan heimilda og að stjórnun skólans grundvallist á gegnsæjum starfsháttum.
Skilningur
Skilningur er grundvallarviðhorf í skólasamfélaginu með það að leiðarljósi að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur.
Framtíðarsýn
Hrafnagilsskóli vill hafa farsæl mótandi áhrif á samfélagið og að litið verði með trausti til alls þess sem þar er gert. Nám og kennsla er þungamiðja skólastarfs og því mikilvægt að fagfólk komi að öllum störfum. Það er metnaðarmál Hrafnagilsskóla að nemendur fái góða menntun, að skólinn sé eftirsóknarverður vinnustaður og að hann sé þekktur fyrir fagmennsku, áreiðanleika og árangur.
Skólamenning Hrafnagilsskóla einkennist af vilja stjórnenda, kennara og annarra starfsmanna til að nemendur nái góðum námsárangri.
Námið byggir á árangursviðmiðum, vandaðri áætlanagerð, vali á námsefni, kennsluaðferðum og námsmati sem styður nemendur í að ná hæfniviðmiðum.
Stjórnendur leiða starfsþróun í kennslu á grundvelli fimm meginþátta í starfi kennarans: persónulegum eiginleikum, fagþekkingu, áætlanagerð og undirbúningi, kennslu og bekkjarstjórnun og námsmati.
Vingjarnleiki, ábyrg hegðun og virðing einkenna samskipti í skólanum.
Forsenda alls náms er vellíðan og það er frumhlutverk grunnskóla að skapa starfsanda sem laðar hana fram. Það er yfirlýstur vilji starfsfólks Hrafnagilsskóla að ná því marki með því fyrst og fremst að;
- koma fram við nemendur af virðingu og góðvild,
- höfða til ábyrgðar nemenda á eigin námi og hegðun,
- laga nám að þörfum nemenda,
- sem flest í skólastarfinu sé fyrirsjáanlegt,
- taka mið af áhugasviði nemenda og skapa nemendum öruggt starfsumhverfi.
Til að efla með nemendum sjálfstraust, auka máttarkennd og skapa frjóar námsaðstæður þarf einkum tvennt að fara saman. Annars vegar þurfa verkefnin að vera hæfilega krefjandi og hins vegar að þau séu áhugavekjandi með viðeigandi hvatningu og leiðsagnarmati. Námsefni og kennsluaðferðir eru valdar með hliðsjón af Aðalnámskrá grunnskóla.
Sú menntastefna sem birtist í Aðalnámskrá grunnskóla árið 2011 er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina. Grunnþættirnir eru: Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir snúast um læsi á samfélag, menningu, umhverfi og náttúru þannig að börn og ungmenni læri að byggja sig upp andlega og líkamlega, að bjarga sér í samfélaginu og vinna með öðrum (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011). Birtingarmyndir grunnþáttanna í Hrafnagilsskóla eru eftirfarandi.
Læsi
Læsi höfðar til þess að hver einstaklingur hafi hæfni til að skynja og skilja umhverfi sitt og samfélag á gagnrýninn hátt og taka þátt í að móta það. Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir heyra og lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á. Hefðbundið læsi tengist kunnáttu og færni sem fólk þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í letur og skilið prentaðan texta. Læsi í víðum skilningi vísar hins vegar til þess að nemendur nái tökum á ýmsum táknkerfum og miðlum (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Birting læsis í skólastarfinu
– Unnið er eftir lestrarstefnu skólans (er í endurskoðun).
– Læsi í víðum skilningi felur í sér að vera læs á menningu sína, félagsleg samskipti og umhverfi.
– Læsi gengur í gegnum allar námsgreinar allra árganga. Það tekur til kennslu og þjálfunar í lestri og lesskilningi, tjáningar og samskipta, ritunar, eflingar orðaforða, notkunar ýmissa miðla og stafrænnar tækni.
– Áhersla er lögð á ígrundun, gagnrýna hugsun og miðlun efnis.
– Í lestrarkennslu er áhersla lögð á: Lestur, skrift, orð, málnotkun, málsamfélag, bækur, blöð, ritföng, tölvur, umræður, orðanotkun, myndmál, stafrænt læsi, miðlamennt, miðlalæsi, ljósmyndir, prentað mál, tónlist og merkingarsköpun. Unnið er með sömu þætti á öllum stigum en með auknum kröfum þegar nemendur eldast en þar er lögð meiri áhersla á gagnrýna hugsun, ígrundun og miðlun efnis á fjölbreyttan hátt.
Dæmi um leiðir til læsis
– Kennt er eftir lestrarstefnunni Byrjendalæsi.
– Áhersla á les- og hlustunarskilning.
– Yndislestur.
– Bókasafn.
– Tölvur og snjalltæki.
– Fjölbreyttir kennsluhættir.
– Stóra upplestrarkeppnin.
– Lesstundir nemenda 7. bekkjar í leikskóla.
– Tónmenntakennsla.
– List- og verkgreinakennsla.
– Samverustundir.
– Dagur íslenskrar tungu.
– Ýmis afmörkuð verkefni tengd læsi s.s. dagbókarskrif og lestrarátök.
– Dagleg lestrarþjálfun í skóla og heima.
Sjálfbærni
Menntun til sjálfbærni miðar að því að gera fólki kleift að takast á við viðfangsefni sem lúta að samspili umhverfis, félagslegra þátta og efnahags í þróun samfélags. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til næstu kynslóðar í ekki lakara ástandi en við tókum við því. Í sjálfbærnimenntun felst að skapa samábyrgt samfélag þar sem sérhver borgari er meðvitaður um náttúru, umhverfi, lýðræði, mannréttindi og réttlæti. Hluti af sjálfbærnimenntun felst í að börn og ungmenni takist í námi sínu á við margvísleg álitamál og ágreiningsefni. Markmið menntunar er geta til aðgerða, sem er þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Birtingarmynd sjálfbærnimenntunar
– Hrafnagilsskóli vinnur eftir sjónarmiðum umhverfisverndar eins og hægt er hverju sinni.
– Reynt er eftir fremsta megni að endurnýta hluti og endurvinna. Lögð er áhersla á að nýta vel allan pappír. Sorp er flokkað og lögð er áhersla á umbúðalaust nesti. Lífrænn úrgangur er nýttur til moltugerðar.
– Hvatt er til hófsemi t.d. með því að borða þann mat sem nemendur skammta sér og endurnýta hluti sem mest.
– Nemendur vinna verkefni sem tengjast sjálfbærni t.d. að vigta matarafganga, gera áætlun um hvernig megi minnka sorpið o.fl.
– Á samverustundum og í gæðahringjum eru ýmis mál rædd og nemendur fá tækifæri til að koma á framfæri skoðunum sínum. Álitamál eru tekin fyrir og lýðræðisleg vinnubrögð viðhöfð. Sjálfbærni er tengd dyggðakennslu eins og þegar fjallað er um ábyrgð og virðingu.
– Í námsgreinum eins og náttúrufræði, samfélagsfræði, umhverfismennt, og heimilisfræði fer fram fræðsla, verkefni og umræður um ýmislegt tengt sjálfbærni.
– Skólinn hefur aðgang að útikennsluvæði í Aldísarlundi sem er skógarlundur í nágrenni hans. Nemendur og fagteymi innan skólans hafa umsjón með lundinum. Efniviður skógarins er t.d. notaður í þematengd verkefni og í smíðum. Ýmis fræðsla fer fram í Aldísarlundi.
– Nemendum í 6. bekk er boðið í siglingu með skipinu Húna II.
– Umhverfismennt er á stundaskrá yngsta stigs og miðstigs og farið er reglulega í göngu- og vettvangsferðir um næsta nágrenni skólans. Nemendur fara reglulega í lengri vettvangsferðir sem tengjast þeim viðfangsefnum sem unnið er með hverju sinni.
Leiðir til sjálfbærni
– Samverustundir og gæðahringir.
– Hinar ýmsu námsgreinar.
– Útivistardagar.
– Umhverfisdagar að vori, þemadagar og fleiri óhefðbundnir dagar.
Heilbrigði og velferð
Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Í öllu skólastarfi þarf að huga að því að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan. Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Leggja þarf áherslu á: Jákvæða sjálfsmynd, hreyfingu, næringu, hvíld, andlega vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilning á eigin tilfinningum og annarra (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011).
Birtingamynd heilbrigðis og velferðar
– Iðjuþjálfi fylgir eftir hreyfiþjálfun hjá nemendur í 1. bekk.
– Á yngsta stigi er umhverfismennt á stundaskrá í hverri viku.
– Nemendur fá íþrótta-, dans- og sundkennslu allt skólaárið. Að hausti og vori eru íþróttir kenndar utandyra.
– Fastir útivistardagar eru á skólaárinu. Á haustönn er farið í gönguferð og á vorönn á skíði í Hlíðarfjall og í hjólaferðir.
– Á yngsta stigi er lögð áhersla á aukna hreyfingu með viðbótartíma á stundatöflu sem kallast tómstundahringekja.
– Hreyfistöðvar er að finna um skólann sem ýta undir aukna hreyfingu á skóladeginum, þ.e. klifurveggur og gólfspil á yngsta stigi, upphífingarstangir á mið- og unglingastigi.
– Lögð er áhersla á umbúðalaust nesti með því að bjóða upp á ávaxtaáskrift og nemendur nota eigin könnur undir mjólk og vatn.
– Í mötuneyti er ávallt boðið upp á ferskt grænmeti með hádegismatnum.
– Regluleg úttekt er gerð á næringarinnihaldi matarins í mötuneytinu.
– Nemendur frá fræðslu um hollustu og hreyfingu, kynheilbrigði og tannheilsu frá skólahjúkrunarfræðingi.
– Kannanir um vellíðan og svefn eru lagðar reglulega fyrir nemendur.
– Einn af hornsteinum skólastefnunnar er dyggðakennsla. Þar er lögð áhersla á dyggðirnar, ábyrgð, góðvild og virðingu. Unnið er með þessar dyggðir alla skólagönguna.
– Nemendur þjálfast í samskiptafærni og gagnrýnni hugsun m.a. með verkefnavinnu agastefnunnar Jákvæðs aga og áherslu á lykilhæfni.
Leiðir til heilbrigðis og velferðar
– Eineltisáætlun skólans er að finna í skólanámskrá.
– Forvarnaáætlun er í skólanámskrá.
– Rýmingaráætlun er að finna í öllum kennslustofum.
– Agastefnan, Jákvæður agi.
– Þjálfun í anda hugarfars vaxtar (growth mindset) og Hugarfrelsis.
– Íþróttahús og sundlaug.
– Mötuneyti skólans.
– Skólahjúkrunarfræðingur.
– Iðjuþjálfi.
– Stoðkerfi skólans s.s. nemendaverndarráð og skólasálfræðingur.
– Tengiliður farsældar.
– Útivistardagar og umhverfismennt.
– Útikennslustofa í Aldísarlundi.
Lýðræði og mannréttindi
Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Fólk á að búa við mannréttindi í lýðræðisþjóðfélagi. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni. Viðhorf, gildismat og siðferði eru lykilþættir í lýðræðismenntun og að efla með ungmennum gagnrýna hugsun. Umhyggja fyrir fólki, dýrum og umhverfi er einnig hluti lýðræðismenntunar. Áhersla er á samstarf út fyrir veggi skólans við grenndarsamfélagið.
Birtingarmynd lýðræðismenntunar
– Í stefnu Hrafnagilsskóla er að finna dyggðirnar ábyrgð, virðingu og góðvild. Þessar dyggðir eru grunngildi að mannréttindum og samskiptum manna á milli.
– Hluti lýðræðismenntunar er m.a. að kynna börnum grundvallarréttindi sín t.d. með kynningu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
– Nemendur koma sér saman um bekkjarreglur sem þeir setja í bekkjarsáttmála.
– Þau störf sem vinna þarf í bekkjum skiptast nemendur á að inna af hendi.
– Hver bekkjardeild fær að velja einu sinni á vetri hvaða matur er í boði. Það er gert með lýðræðislegri kosningu innan bekkjarins.
– Í bekkjunum eru gæðahringir þar sem rædd eru ákveðin málefni, ágreiningur leystur og nemendur geta komið skoðunum sínum á framfæri.
– Nemendum gefst kostur á því að taka þátt í lýðræðislegum starfsháttum með því að sitja í nefndum og ráðum t.d. nemendaráði, ungmennráði, félagsmiðstöðvaráði og skólaráði. Þar eru teknar ákvarðanir um málefni varðandi skólastarfið.
o Nemendaráð kemur að mótun félagsstarfs á unglingastigi.
o Ungmennaráð er sveitarstjórn til ráðgjafar varðandi málefni sem tengjast ungu fólki. Ráðið gætir hagsmuna ungs fólks og þjálfast nefndarfólk í lýðræðislegum vinnubrögðum. Ungmennaráð er vettvangur fyrir ungt fólk til að koma skoðunum sínum á framfæri.
o Félagsmiðstöðvarráð er starfsfólki félagsmiðstöðvar til halds og traust við undirbúning og skipulag viðburða á vegum félagsmiðstöðvarinnar.
o Skólaráð tekur afstöðu til breytinga á málefnum tengdum skólastarfi. Tveir af nemendum skólans sitja í því ráði ásamt fulltrúum starfsfólks, foreldra, grenndarsamfélags og stjórnenda.
– Í lýðræðismenntun felst að hafa eitthvert val. Nemendur velja oft á milli verkefna eða hvernig þau útfæra og skila verkefnum. Valgreinar eru í 8., 9. og 10. bekk og einnig eiga nemendur þessara bekkja kost á að fá íþrótta- og tónlistariðkun sína metna sem valgrein.
– Með jákvæðum aga er verið að efla gagnrýna hugsun og umhyggju fyrir fólki, dýrum og umhverfi.
Leiðir til lýðræðismenntunar
– Samverustundir og gæðahringir.
– Sýn og stefna skólans.
– Nefndir og ráð.
– Hjálparstarf.
o UNICEF-dagurinn.
o ABC-hjálparstarf.
– Agastefna.
Jafnrétti
Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta t.d. aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis og þjóðernis. Nemendur skulu hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem lögð er áhersla á að búa öll kyn undir jafna þátttöku í samfélaginu. Leggja skal áherslu á rétt allra til náms og skóla án aðgreiningar.
Birtingingarmynd jafnréttismenntunar
– Skólinn hefur skýra skólastefnu sem byggir á virðingu fyrir öllum, ábyrgri hegðun, umhyggju og vingjarnleika í samskiptum.
– Skilningur er grundvallarviðhorf í skólasamfélaginu með það að leiðarljósi að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur.
– Á samverustundum og í gæðahringjum gefast tækifæri til að ræða ýmislegt tengt jafnrétti eins og fjölbreytileika mannkynsins, fordóma í samfélögum o.fl.
– Nemendur fá fræðslu um kyn og kynhneigð eftir því sem aldur og þroski nemenda leyfir.
– Trúarbragðakennsla fer fram í ákveðnum árgöngum. Einnig er fjallað um mismunandi menningu, þjóðerni og lífsskoðanir í samfélagsfræði.
– Tekið er tillit til margbreytileikans í nemendahópnum.
– Nemendur í öllum árgöngum eiga þess kost að hittast oft t.d. í frímínútum og matarhléum.
– Aldursblandað er í verkefnavinnu á þemadögum og í ákveðnum verkefnum/námsgreinum, vinnustundum og ráðum innan hvers stigs.
– Skyldur og réttindi eru ekki þau sömu hjá öllum árgöngum og er það útskýrt fyrir nemendum. Eins er þeim gerð grein fyrir að aukin ábyrgð fylgir auknum réttindum. Nemendur á unglingastigi fá t.d. að vera inni í frímínútum og er treyst fyrir því að viðhafa góð samskipti sín á milli og sýna góða umgengni.
– Innan skóladags yngstu nemenda fara þeir í tómstundahringekju fjórar kennslustundir á viku og gefst kostur á tónlistarnámi á skólatíma.
– Nýtt eru þau tækifæri sem gefast til jafnréttisfræðslu í daglegu skólastarfi.
– Ekkert í skólastarfinu er heftandi fyrir kynin og allir hafa jafnan rétt.
– Með fjölbreyttum kennsluaðferðum og námsmati er komið til móts við mismunandi þarfir nemenda.
Leiðir til jafnréttis
– Stefna og sýn skólans.
– Ráð og nefndir innan skólans með þátttöku nemenda.
– Lýðræðisleg vinnubrögð t.d. með kosningum meðal nemenda.
– Samverustundir og gæðahringir.
– Samstarf við Tónlistarskóla Eyjafjarðar og Ungmennafélagið Samherja.
– Jafnrétti er haft til hliðsjónar í áætlunum skólans, námsáætlunum kennara og skólareglum.
Sköpun
Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika. Sköpun er að uppgötva, njóta, virkja ímyndunaraflið og leika sér með möguleika. Þótt sköpun sé í almennum skilningi nátengd listum og listnámi er sköpun sem grunnþáttur ekki bundin við listgreinar. Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi (Aðalnámskrá, 2011).
Birtingarmynd sköpunar
– Fjölbreyttar kennsluaðferðir eru hafðar að leiðarljósi og öll vinnubrögð einkennast af því. List- og verkgreinar eru fastir liðir í skólastarfinu.
– Reglulega er hefðbundið skólastarf brotið upp þar sem nemendur vinna í aldursblönduðum hópum að ákveðnum verkefnum. Auk þess er reglulega farið í ýmsar náms- og skoðunarferðir.
– Nemendur fá tækifæri til að hafa áhrif á skólastarfið með ýmsum hætti t.d. í gæðahringjum sem eru fastir á stundarskrá hverrar bekkjardeildar.
– Nemendur eru hvattir áfram í þekkingarleit og sköpun t.d. í gegnum leiki, mismunandi hópastarf, útikennslu, tilraunir og rannsóknarvinnu. Þar gefst þeim tækifæri til að læra af upplifun og reynslu sinni.
– Samverustundir skipa stóran sess í skólastarfinu. Þar gefst nemendum tækifæri til að sýna og segja frá verkum sínum og starfi sem verður öðrum nemendum og kennurum hvatning og innblástur. Tónlistarflutningur er fastur liður þar sem nemendur hlusta á ýmsar tegundir tónlistar og taka þátt í söng.
– Verk nemenda eru sýnileg á veggjum skólans og á vef. Reglulega er foreldrum boðið í skólann og þeim sýnd valin verkefni úr starfi vetrarins.
– Nærumhverfi skólans er nýtt á margvíslegan hátt. Skólinn hefur aðgang að útikennslusvæði í Aldísarlundi sem er skógarlundur í nágrenni hans. Efniviður skógarins er notaður í verkefni og aðstaðan nýtt til útieldunar, leikja og fræðslu. Umhverfismennt ýtir undir sköpun.
Leiðir til sköpunarstarfs
– Þátttaka í skapandi skólastarfi á hverjum degi.
– Hátíð á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og þemadagar í tengslum við hátíðina.
– Jólaskemmtun.
– Árshátíðir unglingastigs, miðstigs og yngsta stigs.
– Kennsla í list- og verkgreinum.
– Tónmenntakennsla og forskóli.
– Danskennsla.
– Samvinna við Tónlistarskóla Eyjafjarðar.
– Samvinna við leikskólann Krummakot.
Skráð af Sigurði Aðalgeirssyni með viðbótum frá Karli Frímannssyni.
Haustið 1971 hófst skólahald í Hrafnagilsskóla en skólinn var heimavistarskóli fyrir 4 sveitarfélög (Svalbarðsstrandarhrepp, Öngulsstaðahrepp, Saurbæjarhrepp og Hrafnagilshrepp). Þetta fyrsta starfsár stunduðu nám í skólanum nemendur í 1. og 2. bekk gagnfræðastigs, alls 64, og fór kennslan fram á heimavist skólans.
- Árið 1972 fluttist kennslan úr heimavistinni og yfir í nýtt kennsluhúsnæði, en skólinn var síðan formlega vígður 3. desember 1972.
- 1973 var fyrst tekið landspróf við skólann og árið eftir gagnfræðapróf.
- Árið 1974 var flutt í þrjár nýjar íbúðir við norðurálmu heimavistar.
- Árið 1980 var ný sundlaug, stærð 11 x 25 m., tekin í notkun.
- Árið 1982 var flutt í nýjan skólastjórabústað.
- Árið 1989 var rekstri heimavistar við skólann formlega hætt og tekinn alfarið upp daglegur akstur. Á starfstíma heimavistarinnar var fjöldi nemenda sem þar bjó frá 64 fyrsta starfsárið og upp í 89 nemendur þegar mest var.
- Árið 1989 var nýtt íþróttahús tekið í notkun við skólann með mikilli vígsluhátíð.
- Árið 1991 voru sveitarfélögin þrjú í innanverðum Eyjafirði sameinuð undir nafninu Eyjafjarðarsveit. Skólaárið 1991-1992 voru 69 nemendur í skólanum.
- Árið 1992 er allt skólahald í Eyjafjarðarsveit sameinað undir eina stjórn. Allir nemendur fluttir á einn stað að Hrafnagili, en fyrst eftir sameininguna var skólasel í Sólgarði fyrir yngstu nemendurna úr Saurbæjarhreppi, en því var síðan lokað 1995. Þeir skólar sem sameinaðir voru: Grunnskóli Öngulsstaðahrepps Laugalandi, Grunnskóli Saurbæjarhrepps Sólgarði, Grunnskóli Hrafnagilshrepps Hrafnagili og Hrafnagilsskóli.
- Samfara þessari sameiningu voru innréttaðar kennslustofur í kjallara íþróttahúss.
- Haustið 2000 var stofnuð sérdeild við skólann fyrir stúlkur sem dveljast á meðferðarheimilinu á Laugalandi. Að öllu jöfnu eru það 4-6 stúlkur sem sækja skólann að staðaldri.
- Árið 2001 er viðbygging reist við suðurenda skólans með fjórum almennum kennslustofum, einni minni stofu, bókaherbergi og miðrými. Jafnframt var elsti hluti skólans endurnýjaður.
- 13. janúar 2007 var ný sundlaug vígð ásamt heitum potti, vaðlaug, rennibraut og eimbaði. Einnig voru búningsklefar endurnýjaðir.
- Vorið 2007 fékk skólinn Íslensku menntaverðlaunin sem forseti Íslands veitir
þeim skólum sem sýna framúrskarandi skólastarf.
- 19. september árið 2021 var fyrsta skóflustunga tekin að viðbyggingu við skólann.
Haustið 2010 voru nemendur skólans 211.
Haustið 2011 voru nemendur skólans 203.
Haustið 2012 voru nemendur skólans 182.
Haustið 2013 voru nemendur skólans 173.
Haustið 2014 voru nemendur skólans 170.
Haustið 2015 voru nemendur skólans 150.
Haustið 2016 voru nemendur skólans 152.
Haustið 2017 voru nemendur skólans 140.
Haustið 2018 voru nemendur skólans 150.
Haustið 2019 voru nemendur skólans 163.
Haustið 2020 voru nemendur skólans 159.
Haustið 2021 voru nemendur skólans 169.
Haustið 2022 voru nemendur skólans 172.
Haustið 2023 voru nemendur skólans 182.
Haustið 2024 voru nemendur skólans 179.
Stjórnskipulag skólans
Skólanefnd Eyjafjarðarsveitar
Skólanefnd Eyjafjarðarsveitar fer með málefni Hrafnagilsskóla. Í nefndinni sitja fimm aðal fulltrúar skipaðir af sveitarstjórn.
Skólastjórar
Í skólanum er skólastjóri og aðstoðarskólastjóri.
Skólaráð
Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélagsins. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og er ráðið skipað 9 fulltrúum skólasamfélagsins. Hlutverk þess er að vera umsagnaraðili um starfsáætlanir skólans, koma að stefnumótun skólastarfsins og fylgjast með framkvæmd þess. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um meiri háttar breytingar sem fyrirhugaðar eru á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin.
Í ráðinu sitja;
– 2 fulltrúar nemenda
– 2 fulltrúar foreldra
– 2 fulltrúar kennara
– 1 fulltrúi annarra starfsmanna
– fulltrúi úr grenndarsamfélaginu
– skólastjóri
Stigstjórn
Kennarahópnum er skipt í 4 stig. Kennarar yngsta stigs 1. – 4. bekkur, kennarar miðstigs, 5. – 7. bekkur, kennarar unglingastigs 8. – 10. bekkur og kennarar í list- og verkgreinum. Stigstjóri er yfir hverju stigi og starfar hann skv. starfslýsingu.
Stigsfundir eru að jafnaði haldnir hálfsmánaðarlega eða eftir þörfum.
II hluti. Innra starf skólans
Menntun og uppeldi er samvinnuverkefni skóla og heimila. Þessi svið skarast meira og minna og því þarf samvinna að vera náin.
Sameiginleg verksvið skóla og heimila geta m.a. falist í eftirfarandi;
- námsstuðningi,
- að rækta farsæla mannkosti svo sem ábyrga hegðun, virðingu í samskiptum og vingjarnleika,
- að efla skilning á mikilvægi menntunar og skólastarfi,
- að vera hvetjandi,
- að vera leiðandi í uppeldi sem er meðalvegurinn milli ofríkis og afskiptaleysis,
- að skapa vettvang fyrir foreldra og forráðamenn til að kynnast og samræma t.d. reglur og gildi.
Með því að vinna sameiginlega að menntun og uppeldi á þennan hátt stuðlum við að vellíðan og þroska nemenda á jákvæðan hátt.
Heimanám er mikilvægt og er lögð áhersla á að foreldrar beri ábyrgð á heimanámi barna sinna. Lestrarnám er undirstaða alls annars náms. Það er verkefni sem getur tekið mörg ár og útheimtir oft mikla þolinmæði. Heimili og skóli þurfa að sinna þessu verkefni í samvinnu. Sumir nemendur læra heima upp á eigin spýtur en aðrir þurfa á leiðsögn og hvatningu að halda. Ekki er ætlast til þess að nemendur fáist við verkefni heima sem þeir ráða ekki við. Nauðsynlegt er að skapa sem bestar aðstæður og næði fyrir heimavinnu og heimalestur nemenda.
Tilgangur heimanáms getur verið;
- undirbúningur náms fyrir næsta tíma,
- að stuðla að ákveðnum vinnuvenjum og sjálfsaga,
- að undirstrika ábyrgð nemenda á námi sínu,
- að gefa foreldrum tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna og veita þeim stuðning,
- að veita nemendum tækifæri til að festa í sessi og æfa það sem lært hefur verið í skóla,
- þjálfun á mikilvægri færni,
- tengja heimili og skóla í gegnum heimanám.
Í 17. grein grunnskólalaga er fjallað um nemendur með sérþarfir en þar segir:
,,Nemendur eiga rétt á að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir.“
Sérkennari og stoðkennari, í samvinnu við aðra kennara, hafa umsjón með gerð einstaklingsáætlana fyrir nemendur með sérþarfir. Til grundvallar skulu lagðar athuganir og prófanir sem gerðar hafa verið í skólanum og/eða af sérfræðingum skólaþjónustu. Áætlunin skal innihalda niðurstöður greininga, úrræði, markmið, kennsluáætlun, áætlun um mat og hvernig samskiptum við foreldra verður háttað.
Kennsla nemenda með annað móðurmál
Nemendur, sem hafa annað móðurmál en íslensku eða ekki hafa vald á íslensku vegna búsetu erlendis, eiga rétt á sérstakri kennslu í íslensku. Við móttöku þessara nemenda er fylgt svipuðu ferli og almennt þegar nýr nemandi kemur í skólann. Gerð er námsáætlun fyrir nemandann í samráði við foreldra og það tryggt að upplýsingar um skólastarf liggi fyrir með skýrum hætti. Nemendur með annað móðurmál en íslensku eiga rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Við skólann starfar ÍSAT kennari (íslenska sem annað tungumál) í 20% starfi. Skólinn útvegar kennslu í sænsku og norsku fyrir nemendur í 7. bekk og eldri.
Sérfræðiþjónusta
Í gildi er samningur Eyjafjarðarsveitar við Akureyrarbæ um þjónustu og ráðgjöf við grunnskólann. Í honum felst sérkennslu- og sálfræðiráðgjöf vegna einstakra nemenda. Í 40. grein grunnskólalaga segir: Sérfræðiþjónusta sér um að greining fari fram, skilar tillögu til skólastjóra um hvernig við skuli bregðast, fylgist með úrbótum og metur árangur.
Einnig er samstarf við Akureyrarbæ um barnaverndarmál. Leitað er til sjálfstætt starfandi talmeinafræðings um greiningu, ráðgjöf og þjálfun þegar þess er þörf.
Nemendaverndarráð
Í skólanum er starfandi nemendaverndarráð sem fundar einu sinni í mánuði. Hlutverk ráðsins er að samræma skipulag og framkvæmd þjónustu við nemendur varðandi sérfræðiþjónustu, námsráðgjöf og heilsugæslu. Það fjallar jafnframt um sérstök úrræði varðandi einstaka nemendur og nemendahópa í málum sem vísað hefur verið til ráðsins.
Í nemendaverndarráði sitja skólastjórar, hjúkrunarfræðingur, sérkennari og stoðkennari. Á fundum nemendaverndarráðs eru einnig til skiptis tengiliðir frá Skóla- og félagsþjónustu Akureyrar, þ.e. sérkennsluráðgjafi, sálfræðingur og félagsráðgjafi. Einnig getur ráðið leitað aðstoðar annarra sérfræðinga innan og utan skólans.
Nemendur í 8., 9. og 10. bekk velja sér 3 valgreinar, samtals 6 kennslustundir á viku, en einnig geta þeir valið að stunda tónlistarnám í tónlistarskóla eða skipulagða íþróttaþjálfun í stað einnar valgreinar.
Í Aðalnámskrá frá 2011, almennum hluta segir um námsmat:
,,Megintilgangur námsmats er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með því hvernig þeim tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, stuðlað að námshvatningu, nemendur örvaðir til framfara og metið hvaða aðstoð þeir þurfa.“
Jafnframt segir:
,,Til að geta gegnt þessu margþætta hlutverki þarf námsmat að uppfylla þau skilyrði að vera réttmætt og áreiðanlegt. Tryggja þarf að allt námsmat sé þannig úr garði gert að það meti það sem það á að meta á áreiðanlegan hátt.“
Gera skal grein fyrir viðmiðum námsmats og umsagna í skólanámskrá þannig að nemendum, foreldrum og öllum starfsmönnum skóla sé ljóst hvaða kröfur eru gerðar og hvernig skólinn hyggst meta hvernig þær eru uppfylltar.
Námsmat á að veita nemendum, foreldrum og forráðamönnum, kennurum, viðtökuskólum og skólayfirvöldum upplýsingar um námsgengi nemenda sem m.a. má hafa að leiðarljósi við frekari skipulagningu náms.
Námsmat er óaðskiljanlegur hluti náms og kennslu. Meta skal hæfni, þekkingu, framkomu, vinnubrögð, framfarir, frumkvæði og samvinnu. Matið miðar að því að fylgjast með framförum og hvort nemendur hafi náð settum markmiðum aðalnámskrár. Niðurstöður námsmats ber að skoða með tilliti til þess að nemendur eru ólíkir að upplagi, með mismunandi bakgrunn og að einungis er mögulegt að meta hluta þess sem nemendur fást við og læra. Unnið er fyrst og fremst með áfanga- og lokamarkmið aðalnámskrár.
Nám er annars vegar metið á grundvelli námsmarkmiða og hins vegar vinnubragða, hegðunar, samskipta og viðhorfa. Lögð er áhersla á fjölbreytt námsmat og helstu námsmatsaðferðir eru eftirtaldar:
– Leiðsagnarmat.
– Sjálfsmat nemenda.
– Jafningjamat.
– Mismunandi verkefni og kannanir s.s. munnleg, skrifleg, verkleg, rafræn og myndræn í samræmi við viðfangsefni nemenda hverju sinni.
– Lesfimi metin hjá nemendum í 1. – 10. bekk þrisvar á skólaárinu.
– Skráning á vinnubrögðum.
– Skráning á frumkvæði og samvinnu.
– Skráning á hegðun og samskiptum í skólanum.
– Skráning á framförum.
Vitnisburður við útskrift nemenda úr Hrafnagilsskóla er tvíþættur: Annars vegar er gefin einkunn sem greinir frá námslegri stöðu nemandans í ljósi matsviðmiða aðalnámskrár og hinsvegar umsögn sem greinir frá vinnubrögðum, verkefnaskilum og lykilhæfni.
Framsetning námsmats
Það sem lagt verður til grundvallar framsetningu námsmats eru annars vegar einkunnir fyrir námsmarkmið og hins vegar umsagnir fyrir önnur markmið skv. meðfylgjandi yfirlitstöflu:
Námsmarkmið
einkunn |
Námsmarkmið
umsögn |
Vinnuumsögn | |
1.-4. b. allar námsgreinar | Mat á hæfni | x | |
5.-10. b. allar námsgreinar nema valgreinar | Bókstafur | x | |
10. bekkur vorönn | Bókstafur (meðaltal beggja anna) | x | |
Valgreinar á unglingastig | Bókstafur | x | |
Ástundun 8. – 10.b. | Bókstafur | ||
Hegðun – samskipti – viðhorf | Sameiginleg umsögn kennara tekin saman af umsjónarkennara |
Matsviðmið
Í aðalnámskránni eru sett fram matsviðmið við lok grunnskóla fyrir einstakar námsgreinar og námssvið. Einnig eru sett viðmið fyrir mat á lykilhæfni nemenda. Matsviðmiðin eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Lýsingarnar eru tengdar einkunnunum A, B og C og einungis skilgreindar fyrir 10. bekk. Matskvarðann ber að nota við brautskráningu nemenda úr grunnskóla.
Matskvarðinn er skilgreindur sem sex einkunnir: A, B+, B, C+, C og D. Lýsingar á matsviðmiðum standa á bak við einkunnirnar A, B og C. Matsviðmið eru byggð á hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í aðalnámskrá fyrir 10. bekk. Einkunnina A fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni í námi, einkunnina B fá þeir sem hafa náð góðri hæfni og einkunnina C fá þeir sem sýna sæmilega hæfni. Einkunnin D er gefin þar sem hæfni er ábótavant.
Námsmatskvarðinn A-D er skilgreindur þannig að nemandi sem fær B, B+ eða A hefur náð hæfniviðmiðum í 10. bekk. Má því gera ráð fyrir að þeir nemendur sem ná þeim viðmiðum búi yfir hæfni til þess að hefja nám í íslensku, ensku og stærðfræði í framhaldsskóla á öðru hæfniþrepi. Mat á því hvaða þrep hentar best hverjum og einum er í höndum viðkomandi framhaldsskóla í samráði við nemendur og foreldra og er útfært nánar í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla. Ávallt er um einstaklingsmiðað mat að ræða. Grunnskólinn er ábyrgur fyrir því að um réttmætt og áreiðanlegt mat sé að ræða við lok grunnskóla og að veita nemendum, foreldrum og framhaldsskólum sem besta leiðsögn um nám í framhaldsskóla.
Próf og skimanir
- 1. bekkur
- Lesferill: Leið til læsis. Skimun á tímabilinu 1. – 31. október.
- Stafakannanir reglulega yfir veturinn.
- Raddlestrarpróf hjá þeim sem eru byrjaðir að lesa – lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori eru 20-55-75 orð/mín í maí.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – Lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori eru 40-85-100 orð/mín í maí.
- Aston Index stafsetningarhluti að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori eru 55-100-120 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir, orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl.
- Aston Index (stafsetningarhluti) að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – Lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori eru 80-120-145 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í, orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl.
- Aston Index (stafsetningarhluti) að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – Lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori eru 90-140-160 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Framsagnarpróf við lok vorannar.
- LH 40 leshæfnipróf í febrúar.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl. Einnig eru
lögð fyrir önnur lesskilningspróf yfir skólaárið.
- Aston Index (stafsetningarhluti) að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – Lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori 105-155-175 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Framsagnarpróf við lok vorannar.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl. Einnig eru lögð fyrir önnur lesskilningspróf yfir skólaárið.
- Aston Index (stafsetningarhluti) að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf – Lesferill í september, janúar og maí. Viðmið að vori 120-165-190 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Framsagnarpróf við lok vorannar. Einnig er hægt að meta framsögn í Stóru upplestrarkeppninni þegar hún fer fram á vorönn.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember/desember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl. Einnig eru lögð fyrir önnur lesskilningspróf yfir skólaárið.
- Aston Index (stafsetningarhluti) að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf í september, janúar og maí. Viðmið að vori 130-180-210 orð/mín í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Orðarún próf 1, texti 1 og 2 í nóvember/desember. Próf 2, texti 1 og 2 í apríl.
- bekkur
- Raddlestrarpróf í september, janúar og maí. Viðmið að vori 140-180-210 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Lesskilningspróf í að hausti og vori.
- bekkur
- Raddlestrarpróf í september, janúar og maí. Viðmið að vori 145-180-210 orð/mín. í maí. Nemendur sem glíma við lestrarörðugleika/ hæglæsir eru prófaðir í orðleysulestri og sjónrænum orðaforða og niðurstöður eru skráðar í lesferil á skólaárinu.
- Lesskilningspróf að hausti og vori.
Niðurstöður skimana nýtast fyrst og fremst kennurum til að skipuleggja nám og kennslu einstakra nemenda. Haft er samband við foreldra ef frávik nemenda eru umfram það sem eðlilegt má teljast, þannig að æskilegt sé að grípa til sérstakra úrræða svo sem sérkennslu, að leggja fyrir LOGOS sem greinir dyslexíu og aðra lestrarörðugleika og Talnalykil eða Mat á talna- og aðgerðaskilningi. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir greinandi próf.
Prófafyrirkomulag
Próf eru að jafnaði felld inn í daglega stundaskrá nemenda.
Vitnisburður
Vitnisburður um námsárangur á haustönn er að finna inni á mentor og kynntur í foreldraviðtölum í janúar. Vitnisburðarblað fyrir vorönn er afhent á skólaslitum að vori.
Allir bekkir
– Árshátíðir, ein á hverju aldursstigi. Ágóði þeirra rennur í nemendasjóð sem notaður er til að kosta dagsferð 4. bekkjar, skólabúðaferð 7. bekkjar, skíðaferð og í ferðasjóð 10. bekkjar þ.e. sá hluti sem safnast af sölu í sjoppu.
– Dagur íslenskrar tungu.
– Sprengidagshátíð.
Yngsta stig
– Bekkjarsamkomur í samstarfi við foreldra.
– 4. bekkur fer í dagsferð á vordögum.
Miðstig
– Íþrótta- og leikjadagar einu sinni til tvisvar á vetri.
– Bekkjarsamkomur í samstarfi við foreldra.
– 7. bekkur fer í 5 daga dvöl í skólabúðunum að Reykjum í Hrútafirði.
Unglingastig
– Skólaferðalag í 10. bekk í maí.
– Bekkjarsamkomur í samstarfi við foreldra.
– Að öðru leyti er félagslíf á vegum félagsmiðstöðvarinnar.
Á vegum félagsmiðstöðvar
Forstöðumaður félagsmiðstöðvar í samráði við félagsmiðstöðvaráð og forstöðumann Íþróttamiðstöðvar móta tómstundastarfið. Hlutverk þeirra er að taka þátt í skipulagi tómstundastarfsins og koma sjónarmiðum nemenda á framfæri.
Skólaferðalag 10. bekkjar
Nemendur 10. bekkjar fara í skólaferðalag innanlands í maí. Skólinn greiðir fyrir fararstjórn eins til tveggja kennara í þrjár nætur/fjóra daga.
Ákvörðun um hvert skuli halda í skólaferðalag skal alfarið miðast við þá fjármuni sem til eru í nemendasjóði og skal kostnaður við ferðina ekki vera hærri en ferðasjóður getur greitt. Er þá átt við heildarkostnað við ferðir, fæði, gistingu og afþreyingu. Verði afgangur af ferðasjóði rennur hann til góðgerðamála samkvæmt ákvörðun bekkjarins.
Fjársöfnun í ferðasjóð
Nemendur í 10. bekk safna í ferðasjóð og er fjáröflunin skipulögð í samstarfi nemenda, foreldra þeirra, ritara og umsjónarkennara sem heldur utan um framkvæmdina. Ekki er hægt að ráðstafa fjármunum úr ferðasjóði nema með samþykki og vitund umsjónarkennara, nemenda og foreldra.
Vorferð 4. bekkjar
Nemendur í 4. bekk fara í dagsferð með umsjónarkennara sínum á vordögum. Ferðakostnaður er greiddur af nemendasjóði.
Mötuneyti er rekið við Hrafnagilsskóla og fá nemendur í 1.-10. bekk hádegisverð alla virka daga. Matreiðslumaður sér um rekstur mötuneytisins og greiðir sveitarfélagið kostnað við máltíðir nemenda.
Áhersla er lögð á að í mötuneytinu njóti nemendur fjölbreyttrar fæðu í hæfilegu magni, að matvælin séu rík af næringarefnum og fersk og að þau séu í háum gæðaflokki. Boðið er upp á ávexti eftir matinn og einstaka sinnum er eftirréttur. Matseðlar eru gerðir fyrir mánuð í senn og birtast á heimasíðu skólans. Reglulega er gerð úttekt á matseðlum skólans af næringarfræðingi og þeir skoðaðir í ljósi manneldismarkmiða Lýðheilsustöðvar.
III hluti. Reglur, stefnur og áætlanir
1. grein
Skólareglum er ætlað að skapa starfsanda sem byggir á vellíðan, gagnkvæmri virðingu og samábyrgð allra í skólasamfélaginu. Þær skulu tryggja vinnufrið í kennslustundum, almenn mannréttindi og öryggi í samskiptum. Skólareglur taka til alls skólasamfélagsins og er öllum skylt að fara eftir þeim. Þær eiga við á skólatíma, í skólahúsnæðinu, mötuneyti, á skólalóðinni, í skólabílum og á ferðum sem farnar eru á vegum skólans.
2. grein
Almenn umgengni skal einkennast af umburðarlyndi, kurteisi og snyrtimennsku og virðingu fyrir eignarréttinum. Líta ber á vinnufrið í skólastofunni sem sjálfsögð mannréttindi. Jafnrétti og lýðræði skal haft að leiðarljósi. Öllum ber að vera stundvís og ganga hljóðlega um húsakynni skólans.
3. grein
Tilkynna ber forföll samdægurs. Leyfi í 1-2 daga getur forráðamaður eða foreldri sótt um til umsjónarkennara eða ritara. Öll lengri leyfi þarf að sækja um skriflega til skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra. Þegar nemendur koma í skólann að nýju eftir veikindi þurfa þeir að hafa heilsu til að taka þátt í öllum námsgreinum samkvæmt stundaskrá og til að vera úti í frímínútum. Nemendur sem fá undanþágu frá íþróttum eða því að fara út í frímínútur þurfa að hafa læknisvottorð.
4. grein
Nemendur 1.-7. bekkjar eiga að fara út í frímínútum. Engum nemanda er heimilt að fara út af skólalóðinni á skólatíma nema með leyfi starfsfólks. Virða ber eignarrétt íbúa svæðisins. Öllum nemendum ber að nota hjálm á hjóli, línuskautum, hlaupahjóli og öðrum samskonar leiktækjum. Nemendur mega koma á rafhlaupahjólum í skólann en notkun þeirra er ekki leyfð á skólatíma. Nemendum með tilskilin leyfi er heimilt að koma á skellinöðru/vélhjóli í skólann en ekki er heimilt að nota vélhjól á skólatíma.
5. grein
Stuðla ber að heilbrigðum lífsháttum varðandi neysluvenjur, útivist og hreyfingu. Óheimilt er að vera með tyggjó, sælgæti eða gosdrykki nema með sérstöku leyfi. Neysla hvers kyns vímuefna er með öllu óheimil, þar með talið rafrettur, nikótínpúðar, tóbak og áfengi. Farsímar eru með öllu óheimilir á skólatíma nema í sérstökum tilvikum. Ef símar eru notaðir á skólatíma án leyfis verða þeir teknir í vörslu starfsfólks þar til skóladegi lýkur. Sömu reglur gilda um snjallúr sem eru með innbyggðum símum. Við endurtekin brot á þessari reglu þurfa foreldrar eða forráðamenn að sækja síma/símaúr barna sinna í skólann.
6. grein
Gengið er að því sem gefnu að nemendur komi í skólann til að læra og skal allt skólastarf miðast við það. Nemendum ber að sinna heimanámi skv. fyrirmælum kennara. Nemendur skulu hlýða fyrirmælum starfsfólks skólans.
7. grein
Skólinn tekur ekki ábyrgð á persónulegum munum nemenda og fjármunum. Tryggingar skólans bæta skaða sem rekja má til vanrækslu af hálfu skólans. Í þeim tilvikum sem nemendur slasast og þurfa á slysadeild á skólatíma greiðir skólinn fyrir fyrstu komu þangað.
8. grein
Umsjónarkennarar skulu kynna nemendum sínum skólareglur Hrafnagilsskóla sem og forráðamönnum/foreldrum.
9. grein
Gæta skal hófs við beitingu viðurlaga við broti á skólareglum. Viðurlög skulu til þess fallin að hvetja nemendur til bættrar hegðunar.
Veita skal nemendum stuðning sýni þeir af sér óæskilega hegðun og/eða slaka ástundun og leitast við að koma skólagöngu þeirra í viðunandi horf í samstarfi við foreldra. Taka skal tillit til aðstæðna og þarfa nemenda og stuðla að alhliða þroska, velferð og menntun hvers og eins.
10. grein
Starfsmönnum skóla er óheimilt að neyta aflsmunar nema nauðsyn krefji til að stöðva ofbeldi eða koma í veg fyrir að nemandi valdi sjálfum sér eða öðrum skaða eða eignatjóni. Umsjónarkennari skal ávallt greina foreldri/forráðamanni við fyrsta tækifæri frá hegðunarfrávikum eða sjá til þess að það verði gert.
Viðurlög við brotum á skólareglum
Fylgi nemandi ekki almennum skólareglum og umgengnisvenjum skal reynt til þrautar að efla skilning hans á viðunandi hegðun. Ef það tekst ekki skal umsjónarkennari, kennari eða skólastjórnandi hafa samband við foreldri eða forráðamann og kalla eftir samstarfi til lausnar á vandanum. Leita skal ástæðu fyrir hverju broti og finna lausn í samræmi við það.
Verði hegðun nemanda til þess að ekki náist vinnufriður í kennslustofu skal ræða við viðkomandi í þeim tilgangi að glæða skilning svo að hegðunin endurtaki sig ekki. Við ítrekuð brot vegna truflunar, áreitni, orðbragðs eða hættu á að viðkomandi skaði sjálfan sig eða aðra er heimilt að vísa nemanda úr tíma og verður hann þá að vera í umsjá starfsmanns sem fer með nemandann í einrúm og gefur honum færi á að jafna sig.
Í kjölfar alvarlegra eða ítrekaðra brota boða skólastjórnendur til fundar með foreldrum og forráðamönnum eins fljótt og auðið er til að ræða stöðuna sem upp er komin og fara í lausnaleit í kjölfarið.
Ef ítrekuð brot eru alvarleg eða stefna lífi eða heilsu í hættu innan skólans má vísa nemanda um stundarsakir úr skóla á meðan reynt er að finna lausn á máli hans (sbr. reglugerð nr. 1040/2011 um skólareglur í grunnskólum).
Við ítrekuð brot verður málum vísað til nemendaverndarráðs, sérfræðiþjónustu, barnaverndar eða skólanefndar, allt eftir eðli málsins.
Ef nemendur verða uppvísir að notkun tóbaks, nikótínpúða, rafretta, áfengis eða annarra vímuefna skal hafa samband við foreldri eða forráðamann og láta skólastjóra vita.
Komi til aðgerða vegna brota á skólareglum skal ávallt tilkynna þær foreldri eða forráðamanni og fara að stjórnsýslulögum.
Við meðferð agabrota er tekið mið af reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum 1040/2011 sem Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur sett.
Heilsugæsla í skólum er framhald ung- og smábarnaverndar. Hún er m.a. fólgin í reglulegum heilsufarsathugunum og ónæmisaðgerðum ásamt heilbrigðisfræðslu og ráðgjöf. Auk þess sinna hjúkrunarfræðingar í skólum sjúkra- og slysaþjónustu að vissu marki. Einnig er lögð áhersla á heilbrigðisfræðslu og forvarnir af ýmsu tagi og munu eftirfarandi mælingar og skimanir fara fram:
- bekkur
Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling og spjall. Fræðsla um Líkaminn minn (um kynferðislegt ofbeldi), hjálmafræðsla.
- bekkur
Fræðsla um tilfinningar.
- bekkur
Fræðsla þar sem fjallað er um ýmislegt varðandi heilsuna (hollusta, hreynlæti, hugrekki, hamingja, hreyfing og hvíld).
- bekkur
Sjónpróf, hæðar- og þyngdarmæling og spjall. Fræðsla um kvíða.
- bekkur
Fræðsla um samskipti.
- bekkur
Fræðsla um kynþroskann. Endurlífgun.
- bekkur
Sjónpróf, hæðar-og þyngdarmæling og spjall. Fræðsla eftir þörfum eftir spjallið við börnin. Bólusetningar gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (ein sprauta að hausti) og gegn HPV (human papillomavirus) sem getur valdið krabbameini í slímhúð (ein sprauta að hausti og ein að vori).
- bekkur
Fræðsla um hugrekki ( að standast óæskilegan félagsþrýsting og fara eftir sinni sannfæringu) og fræðsla um líkamsímynd.
- bekkur
Sjónpróf, hæðar-og þyngdarmæling og spjall. Kynfræðsla: Umfjöllun er tengist kynhegðun og samskiptum, hreinlæti, getnaðarvörnum og kynsjúkdómum. Bólusetningar gegn mænusótt, barnaveiki, stífkrampa og kíghósta (ein sprauta).
- bekkur
Fræðsla um geðheilbrigði, kynheilbrigði, endurlífgun og að lokum fræðsla um ábyrgð á eigin heilsu loka spjall um framhaldið, fjallað um hver er hægt að leita, krabbameinsskoðanir (sjálfsskoðanir og læknisskoðanir), framhald bólusetninga o.s.fr.
Ef foreldrar/forráðamenn hafa áhyggjur af heilsufari barns t.d. varðandi ofantalda þætti er fólk vinsamlega beðið um að koma þeim upplýsingum til hjúkrunarfræðings svo hægt sé að bregðast við.
Þá eru kennarar ávallt vakandi fyrir því að vísa börnum til hjúkrunarfræðingsins, sérstaklega ef grunur vaknar um að sjón eða heyrn hafi versnað.
Þá mun fræðsla og forvarnarstarf fara fram í ýmsum bekkjum eftir því sem við á og í samráði við kennara. Sú fræðsla fjallar þá m.a. um; persónulegt hreinlæti, tannhirðu, hollt mataræði, æskilegan svefntíma, hjálmanotkun, samskipti og fíkniefni.
Hrafnagilsskóli hefur einsett sér að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem skólinn vinnur. Skólinn hefur á þeim grundvelli sett sér persónuverndarstefnu sem finna má í heild sinni inni á heimasíðu skólans.
Tilgangur með persónuverndarstefnu er að leitast við að uppfylla í hvívetna þá persónuverndarlöggjöf sem er í gildi hverju sinni og er stefna þessi byggð á lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga („persónuverndarlög“).
Með stefnunni leggur skólinn áherslu á mikilvægi þess að gætt sé að því að öll vinnsla persónuupplýsinga innan skólans fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Persónuverndarstefnan lýsir vinnslu skólans á persónuupplýsingum.
Jákvæður agi
Í Hrafnagilsskóla er unnið með uppeldisstefnu sem nefnist Jákvæður agi (Positive Discipline). Jákvæður agi miðar að því að móta skólabrag sem einkennist af umhyggju, gagnkvæmri virðingu, góðvild og festu.
Með Jákvæðum aga er lögð áhersla á að;
- ávallt sé sýnd gagnkvæm virðing í samskiptum bæði meðal barna og fullorðinna
- fyrirbyggja valdabaráttu milli fullorðinna og barna,
- börnum sé sýnd góðvild og festa á sama tíma þegar þeim eru sett mörk og þeim fylgt eftir,
- efla ábyrgð barna og kenna þeim að leita lausna,
- nota hvatningu og hrós í stað umbunar,
- byggja á styrkleikum barna,
- fá börn til samstarfs og efla þannig sjálfsmynd þeirra,
- skapa góðan bekkjaranda sem stuðlar að því að nám geti farið fram,
- nota bekkjarfundi til að kenna félagsfærni og lífsleikni,
- skilja ástæður hegðunar í stað þess að einblína á afleiðingar hegðunar,
- auka samvinnu heimilis og skóla.
Almennt um hegðun nemenda
Í grunnskólalögum segir að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, á framkomu sinni og samskiptum með hliðsjón af aldri og þroska. Þeim ber að hlýða fyrirmælum kennara og annars starfsfólks og fara eftir skólareglum.
Ábyrgð og skyldur foreldra
Í grunnskólalögum segir að foreldrar skulu gæta hagsmuna barna sinna á skólaskyldualdri. Foreldrum er skylt að veita grunnskóla upplýsingar um barn sitt sem nauðsynlegar eru fyrir skólastarfið og velferð barnsins en jafnframt eiga þeir rétt á upplýsingum um skólastarfið og skólagöngu barna sinna. Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber að fylgjast með námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra.
Viðbrögð við óásættanlegri hegðun
Óásættanleg hegðun er t.d.;
– brot á skólareglum,
– ekki farið að fyrirmælum starfsfólks,
– dónalegt orðbragð og niðrandi samskipti,
– ógnandi og/eða ofbeldisfull samskipti og
– beiting ofbeldis.
Þegar óásættanleg hegðun á sér stað skal viðhafa eftirfarandi starfshætti:
Kennari, stjórnandi eða starfsfólk skráir atvikið og hefur samband við foreldra eða forráðamenn. Í samráði við þá er ákveðið hvernig framhaldið verður, oft er ákveðið að hittast í skólanum; foreldrar eða forráðamenn, kennari eða starfsmaður og stjórnandi. Stundum er ákveðið að foreldrar fylgi barni sínu í skólann en hvert tilvik er skoðað sérstaklega og metið út frá aðstæðum, aldri og hag barnsins.
Markmið með forvörnum er að stuðla að góðri líðan nemenda, jákvæðri sjálfsmynd og lífssýn, heilbrigðum lífsháttum og jákvæðri hegðun. Í skólanum er lögð áhersla á sýn skólans að allir hafi hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. Skólasamfélagið reynir af öllum mætti að skapa þær aðstæður að öllum líði vel við starf og leik. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti starfsfólks og nemenda og að þau einkennist af virðingu, góðvild og festu. Forvarnir eru samofnar öllu starfi skólans og farnar eru margvíslegar leiðir að markmiðum forvarnaráætlunar.
Markmið
- Að gera nemendur færa um að rækta persónuleg lífsgæði sem fylgja þeim ævina á enda.
- Að efla getu nemenda til að taka ábyrgð á eigin lífi, taka ábyrga afstöðu til neyslu vímuefna, tóbaks, fíkniefna og misnotkunar á lyfjum.
- Að fræða nemendur um skaðsemi og hættur sem fylgja neyslu vímuefna, tóbaks og koffíns.
- Að styrkja líkamsvitund nemenda og ábyrgð á eigin líkama.
- Að efla líkamlega, andlega og félagslega heilsu nemenda.
- Að halda uppi fræðslu fyrir foreldra/forráðamenn um heilbrigði.
Yfirlit um forvarnafræðslu Hrafnagilsskóla
1.–4. bekkur
Jákvæð samskipti: Jákvæður agi, bekkjarsáttmálar, skipting á ábyrgðarhlutverkum, gæðahringir, hreyfing, söngur, dans og leikræn tjáning og samverustundir alla morgna.
Umferðin: Bæklingar frá Umferðarstofu, fræðsla og umræður, nemendur fá endurskinsmerki að gjöf frá Björgunarsveitinni Dalbjörgu.
Einelti: Umræður í gæðahringjum, sól á skólalóð fyrir þá sem hafa ekki leikfélaga í frímínútum, Jákvæður agi.
Líkami og heilsa: Fræðsla um líkamann frá hjúkrunarfræðingi og kennurum, umræður í gæðahringjum, tannverndarvika, brúðuleikhús frá Samtökunum Blátt áfram (fræðsla um kynferðislegt ofbeldi) og nemendur í 3. bekk horfa á teiknimyndina Leyndarmálið.
Samhyggð: Hreyfing til góðs á UNICEF- degi að vori. Áheitum safnað til styrktar börnum sem þurfa aðstoð.
5.–7. bekkur
Jákvæð samskipti: Jákvæður agi, bekkjarsáttmálar, skipting á ábyrgðarhlutverkum, gæðahringir, samverustundir alla morgna, hópar fá ART þjálfun og námskeið um samskipti innan árganga.
Umferðin: Fræðsla og umræður, nemendur fá endurskinsmerki að gjöf frá Björgunarsveitinni Dalbjörgu og skyldunotkun hjálma þegar komið er á reiðhjólum og hlaupahjólum í skólann.
Einelti: Umræður í gæðahringjum, Jákvæður agi, tengslakannanir í árgöngum, nemendakannanir Skólapúlsins um líðan og einelti o.fl. í 6. – 10. bekk.
Líkami og heilsa: Fræðsla um líkamann frá hjúkrunarfræðingi og kennurum, umræður í gæðahringjum, fræðsla um sjálfmynd og kvíða, fræðsla og umræður um jákvæða netnotkun, kynfræðsla í 6. og 7. bekk og tóbaksvarnarfræðsla í 7. bekk.
Samhyggð: Hreyfing til góðs á UNICEF- degi að vori. Áheitum safnað til styrktar börnum sem þurfa aðstoð. Verkefnið Öðruvísi jóladagatal SOS Barnaþorpanna.
Netöryggi: Umræða og fræðsla um netöryggi og stafræna borgaravitund í gæðahringjum og vinnustundum.
8.–10. bekkur
Jákvæð samskipti: Jákvæður agi, bekkjarsáttmálar, skipting á ábyrgðarhlutverkum, gæðahringir, samverustundir vikulega, vinnustundir, fjáröflunarvinna. Félagsmiðstöðin Hyldýpi stendur fyrir opnu húsi og fleiri viðburðum svo sem ferðalögum og andvökunótt.
Einelti: Umræður í gæðahringjum og á samverustundum, Jákvæður agi, tengslakannanir í árgöngum, nemendakannanir Skólapúlsins um líðan og einelti o.fl. í 6. – 10. bekk.
Líkami og heilsa: Fræðsla um líkamann frá hjúkrunarfræðingi og kennurum, umræður í gæðahringjum, fræðsla um sjálfmynd og kvíða, fræðsla og umræður um jákvæða netnotkun, kynfræðsla og tóbaks- og vímuefnafræðsla.
Samhyggð: Hreyfing til góðs á UNICEF- degi að vori. Áheitum safnað til styrktar börnum sem þurfa aðstoð. Afgangur af ferðasjóði í 10. bekk er gefinn til góðs málefnis.
Netöryggi: Umræða og fræðsla um netöryggi og stafræna borgaravitund í gæðahringjum og vinnustundum.
Markmið áfallaáætlunar er tryggja viðeigandi viðbrögð skólans við áföllum sem nemendur geta orðið fyrir vegna ýmissa atburða í lífinu. Hún er verklýsing fyrir starfsfólk skólans þegar takast þarf á við áföll sem verða í skólanum eða tengjast honum.
Viðbrögð við áföllum
- Skólastjóri leitar staðfestingar á andláti eða slysi.
- Áfallateymi er kallað saman þegar það á við.
- Starfsmönnum og nemendum er sagt frá atburðinum.
- Skólastjórnendur sjá um að upplýsingar berist til heimila.
- Hlúð að nemendum og starfsfólki skólans.
Skipan áfallateymis
Í áfallateymi eru skólastjóri, aðstoðarskólastjóri og hjúkrunarfræðingur skólans. Aðrir eru kallaðir til eftir atvikum. Ef vilji er hjá aðstandendum og málið af þeim toga er gott að hafa prest í áfallateyminu.
Hlutverk áfallateymis
Áfallateymi sér um verkstjórn við válega atburði. Það leitar upplýsinga og upplýsir starfsfólk/nemendur/foreldra um atburðina. Það sér um að nemendur skólans fái viðeigandi þjónustu ef þeir verða fyrir áfalli. Áfallateymið vinnur með starfsfólki/foreldrum/nemendum og bekkjum eins lengi og þörf er á. Það styður við og aðstoðar endurkomu nemanda í skólann eftir missi eða áfall. Áfallateymi leitar aðstoðar fagfólks ef á þarf að halda.
Einnig gerir það áætlanir um viðbrögð eftir því sem við á og kynnir fyrir starfsfólki og stendur fyrir fræðslu fyrir starfsmenn um viðbrögð barna og fullorðinna við áföllum.
Mikilvægt er að foreldrar eða aðrir nánir aðstandendur láti skólastjóra eða umsjónarkennara vita af áföllum sem nemendur verða fyrir svo hægt sé að bregðast við með viðeigandi hætti eins fljótt og mögulegt er.
Tillögur að skilgreiningum á áföllum í skóla.
- Alvarlegt slys eða dauðsfall nemanda.
- Alvarlegt slys eða dauðsfall foreldis, systkinis eða náins ættingja nemanda.
- Alvarlegt slys eða dauðsfall starfsmanns.
- Alvarleg veikindi nemanda eða aðstandenda.
- Langvarandi veikindi nemanda/starfsmanns.
- Náttúruhamfarir.
- Andlát vinar.
- Líkamsárás.
- Annað sem veldur áfalli hjá nemanda samkvæmt mati áfallateymis.
Ritari skólans í samvinnu við áfallateymi þarf að geta veitt og tekið við upplýsingum. Gott er að hafa einn aðila áfallateymis sem tengilið við fjölmiðla ef þess þarf. Æskilegt er að það sé skólastjóri.
Áfallateymi hefur undir höndum ákveðna verkferla þegar áföll verða hjá nemendum eða starfsfólki skólans. Þar er farið yfir hvað þarf að gera samdægurs og síðan næstu daga og mánuði eftir áföll. Verkferlunum er skipt í eftirfarandi kafla:
- Viðbrögð skólans við slysi eða dauða.
- Þegar nemandi/starfsmaður deyr.
- Þegar börn missa foreldri eða systkin.
- Áfallahjálp.
Það er yfirlýst í Hrafnagilsskóla að einelti er ekki liðið og leita skal allra leiða til að stöðva það.
Skilgreining á einelti
,,Einelti er endurtekið áreiti eða ofbeldi, líkamlegt eða andlegt, sem stýrt er af einstaklingi eða hópi og beinist að einstaklingi sem ekki tekst að verja sig.“
Líkamlegt einelti: T.d. að lemja, hrinda, sparka, stela, skemma eigur annarra.
Andlegt einelti: T.d. að hóta, uppnefna, stríða, hafa uppi niðrandi athugasemdir skriflega eða munnlega, útiloka úr hópi eða hafna, breiða út sögur og ljúga upp á.
Þátttakendur eineltis
Þeir sem lenda í eineltisaðstæðum eru þolendur, gerendur og áhorfendur en þeir síðastnefndu taka ekki beinan þátt en koma þolandanum ekki til hjálpar.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Kennurum ber að vinna gegn einelti með fyrirbyggjandi vinnu. Hægt er að vinna t.d. með bókmenntir sem fjalla um samskipti, lífsleikni eða siðfræði. Einnig í gegnum almennar umræður. Gæðahringir eða bekkjarfundir eru einu sinni í viku í hverjum bekk og þar eru samskipti og líðan rædd.
Markmið með áætlun gegn einelti er að;
- stuðla að því að skólinn sé öruggur staður,
- stuðla að því að nemendum líði vel í skólanum,
- upplýsa nemendur um alvarlegar afleiðingar eineltis,
- stuðla að samvinnu heimilis og skóla í eineltismálum,
- upplýsa foreldra/forráðamenn um einelti,
- foreldrar hafi aðgang að stefnu skólans í eineltismálum.
Vinnuferli í eineltismálum:
- Hver sá í skólasamfélaginu (nemandi, foreldri, starfsmaður) sem fær vitneskju/grun um einelti skal gera umsjónarkennara eða skólastjórnanda grein fyrir málinu.
- Byrjað er á því að kanna málið og leitað er upplýsinga. Ein leiðin gæti verið að leggja könnun á samskiptum, tengslum og líðan fyrir bekki.
- Umsjónarkennari eða skólastjórnandi leitar eftir upplýsingum frá þolanda, forráðamönnum hans, hugsanlegum gerendum og starfsfólki skólans. Forráðamönnum aðila málsins er gerð grein fyrir stöðunni.
- Umsjónarkennari/skólastjórnandi gerir þeim kennurum og starfsfólki sem hafa með málið að gera, grein fyrir stöðu þess. Myndað er eineltisteymi sem vinnur að úrlausn. Í teyminu situr skólastjórnandi, umsjónarkennari viðkomandi nemenda og iðjuþjálfi. Fleiri aðilar geta verið kallað til eftir eðli og umfangi. Rætt er við meinta gerendur og þolanda (á ekki alltaf við). Mikilvægt er að ferlið sé skráð á sérstakt skráningarblað.
- Áætlun er gerð um aðgerðir til að stöðva eineltið. Unnið er með samskipti og tengsl innan bekkja eða meðal nemenda í skólanum. Foreldrar eru upplýstir reglulega um stöðuna.
6. Beri ofangreindar aðgerðir ekki árangur er málinu vísað til nemendaverndarráðs til frekari úrlausnar.
Jafnréttisáætlun þessi er gerð í samræmi við ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.
Einn af grunnþáttum menntunar er jafnrétti (Aðalnámskrá grunnskóla 2011). Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta t.d. aldurs, búsetu, fötlunar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumáls, ætternis og þjóðernis.
Stefna Hrafnagilsskóla er að allir, nemendur og starfsmenn, njóti jafns réttar án tillits til kyns. Tækifæri eiga ekki að byggja á kynferði heldur áhuga, hæfileikum og færni.
Jafnréttisnefnd
Í jafnréttisnefnd sitja fjórir starfsmenn skólans. Hlutverk nefndarinnar er að;
- fylgjast með að unnið sé samkvæmt jafnréttisáætlun skólans,
- endurskoða framkvæmdaáætlun árlega,
- taka saman gögn sem unnin eru skv. áætluninni s.s. tölulegar upplýsingar og gera umbætur í kjölfarið sé þess þörf.
Starfsfólk
Þess skal gætt í öllum starfsháttum skólans og daglegri umgengni við starfsfólk að því sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Leitast skal við að mæta þörfum beggja kynja í skólastarfinu.
Starfsþjálfun og endurmenntun
Konum og körlum sem vinna sambærileg störf í skólanum skal til jafns standa til boða starfsþjálfun og endurmenntun.
Laun
Nauðsynlegt er að fylgjast með launum starfsmanna út frá kynjasjónarmiðum og að jafna laun kynjanna komi launamunur í ljós.
Samræming starfs og einkalífs
Mikilvægt er að starfsfólk hafi tækifæri til þess að sinna skyldum sínum í starfi jafnt sem einkalífi og gott að jafnvægi sé þar á milli. Reynt er að koma til móts við starfsmenn um sveigjanleika í störfum þar sem þess er kostur.
Kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti og einelti
Unnið er út frá jafnréttisáætlun Eyjafjarðarsveitar en í henni er að finna viðbrögð við kynferðislegu áreiti, kynbundinni áreitni og einelti á vinnustöðum.
Allt starfsfólk skólans þarf að vera meðvitað um ábyrgð og færar leiðir ef upp koma tilvik sem varða kynferðislega áreitni eða einelti.
Nemendur
Þess skal gætt í öllum starfsháttum skólans og daglegri umgengni við nemendur að þeim sé ekki mismunað á grundvelli kynferðis og skal orðræða starfsfólks taka mið af því. Leitast skal við að mæta þörfum allra kynja í skólastarfinu.
Fræðsla
Leitast skal við að vinna samkvæmt markmiðum Aðalnámskrá grunnskóla (2011) þar sem ein af grunnstoðum menntunar er jafnrétti.
Náms- og starfsfræðsla
Mikilvægt er að kynna öllum nemendum möguleika á framhaldsmenntun og störfum sem litið hefur verið á sem hefðbundin kvenna- eða karlastörf. Jafnframt hvetja nemendur til að prófa það sem hentar hverjum og einum burtséð frá kyni.
Kynferðisleg áreitni og kynbundið áreiti
Nemendur fá fræðslu um kynferðislega áreitni og kynferðislegt ofbeldi og skal ætíð vera ljóst hvert þeir geta leitað eftir aðstoð komi slík mál upp.
Samstarf heimila og skóla
Starfsfólk skólans þarf að vera meðvitað í samskiptum við foreldra/forráðamenn og gæta þess að útiloka ekki annað foreldri/forráðamann á grundvelli kyns. Mikilvægt er að litið sé á öll kyn sem jafngild í foreldrasamstarfinu og að allir aðilar fái allar upplýsingar frá skólanum.
Við móttöku nýrra nemenda er lögð áhersla á hlýjar móttökur og skýrar upplýsingar. Foreldrar og nemandi eru boðuð í skólann til kynningar áður en kennsla hefst. Við komu nýs nemanda í bekk er sérstaklega stuðlað að því að hann tengist þeim sem fyrir eru og er þá m.a. einum eða nokkrum nemendum falið það hlutverk að fylgja honum um skólann fyrstu dagana og bjóða honum að vera með í frímínútum.
Til að auðvelda tilvonandi nemendum í 1. bekk að koma í Hrafnagilsskóla er unnið í aldursblönduðum hópum að fjölbreyttum verkefnum í elsta árgangi Krummakots og yngstu nemendum Hrafnagilsskóla.
Reception of students
When a new student starts at Hrafnagilsskoli the school makes sure to make him feel welcome and give him and his parents all the necessary information. Parents are invited to a meeting with the class teacher and the School Administrators, who are responsible for enrolling a new student. This meeting allows them to get acquainted with the student, his parents and their background. Following the meeting, a tour of the school is provided for the parents and the student to help them get familiarised with the faculty. To ensure that the new student feels as comfortable as possible, classmates are asked to act as guides during the first few days, offering support and help.
IV hluti. Mat á skólastarfi
Mat á skólastarfi er liður í lögbundnu eftirlitsstarfi skóla og skólayfirvalda sem hefur þann tilgang að tryggja réttindi nemenda og stuðla að skólaumbótum. Markmið mats og eftirlits er einkum þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgjast með að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár. Í öðru lagi að auka gæði skólastarfsins og stuðla að umbótum, tryggja að réttindi nemenda séu virt og að þeir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögunum. Í þriðja lagi að veita upplýsingar um skólastarfið, árangur þess og þróun.
Gerð er áætlun um altækt mat á starfi skólans í samræmi við lög um grunnskóla sem gera ráð fyrir því að hver skóli setji sér áætlun um innra mat. Þar segir í 36. grein:
Hver grunnskóli metur með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs á grundvelli 35. gr. með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á. Grunnskóli birtir opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur.
Matinu er ætlað að vera leiðbeinandi og á grundvelli niðurstaðna geti starfsmenn unnið að endurbótum þar sem þess gerist þörf, foreldrar fengið áreiðanlegar upplýsingar um skólastarfið og yfirvöld þau gögn sem leitað er eftir.
- Fyrir nemendur á matið að leiða til árangursríkara náms og betri líðan.
- Fyrir kennara á matið að leiða til meiri árangurs í starfi og aukins starfsþroska.
- Fyrir foreldra á matið að leiða til áreiðanlegri upplýsingagjafar frá skólanum, trausts á skólastarfinu og aukinnar þekkingar á því.
- Fyrir skólastjórnendur á matið að vera til leiðsagnar um nauðsynleg eða æskileg skref í skólaþróun.
Meðal þeirra spurninga sem leitað er svara við í innra mati eru:
- Uppfyllir skólinn lögboðið hlutverk?
- Hvernig stöndum við okkur og hvernig vitum við það?
- Skoðuð er t.d. skólastefna, einkunnir, framfarir nemenda, líðan og umgengni.
Hrafnagilsskóli er með samning við Skólapúlsinn um árlegar viðhorfskannanir meðal nemenda, foreldra og starfsfólks skólans. Einu sinni á ári er lögð fyrir foreldrakönnun og starfsmannakönnun en tvisvar á ári er lögð fyrir nemendakönnun úrtaks nemenda úr 6. – 10. bekk. Nemendur í 4. – 10. bekk í Hrafnagilsskóla taka þátt í Íslensku æskulýðsrannsókninni og eru niðurstöðurnar nýttar í innra mat. Það sama má segja um aðrar tilfallandi kannanir sem skólinn tekur þátt í.
Nemendakönnun Skólapúlsins metur eftirfarandi þætti í skólastarfinu.
- Ánægju og sjálfsmynd ungmenna (mælt með kvörðunum, vanlíðan og sjálfsálit).
- Félagsanda (mældur með kvarða um samsömun við nemendahópinn).
- Umræðuvettvang nemenda og kennara (mælt með kvarðanum, virk þátttaka nemenda í tímum).
- Ábyrgð og sjálfstæði nemenda (mælt með kvarðanum stjórn á eigin árangri).
- Innri metnað og framtíðarsýn (mælt með kvarðanum þrautseigja í námi).
- Skilvirkni kennslustunda (mælt með kvarðanum agi í tímum).
- Leiðandi uppeldi (mælt með kvörðum um samband nemenda við kennara og stjórn á eigin lífi).