Ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum

Nemendur bera sjálfir ábyrgð á fjármunum og persónulegum eigum sínum í skólanum. Þurfi nemendur að hafa peninga með sér í skólann eru þeir hvattir til að biðja kennara, skólaliða eða ritara að geyma þá fyrir sig og aldrei að skilja verðmæti eftir í yfirhöfnum.

Farsímanotkun

Notkun farsíma er með öllu óheimil í kennslustundum og mötuneyti skólans. Nemendum 1.-7. bekkjar er óheimilt að nota símana á skólatíma og skulu þeir geymdir í skólatöskum þar til skóla lýkur.  Nemendur 8.-10. bekkjar mega nota símana utan kennslustunda á skólatíma.  Ef símar eru notaðir í kennslustundum eða á skólatíma hjá nemendum í 1.-7. bekk verða þeir teknir í vörslu starfsfólks þar til skóladegi lýkur. Við ítrekuð brot á þessari reglu eru foreldrar beðnir um að sækja síma nemenda.

Fatnaður og óskilamunir

Áríðandi er að merkja vel skólatöskur, skó, föt, íþróttafatnað og handklæði.  Óskilamunir eru til sýnis í skólanum og eru foreldrar sérstaklega hvattir til að huga að munum barna sinna. Skólaliðar varðveita óskilamuni og er öllum bent á að leita til þeirra.

 

Forföll kennara

Reynt er að útvega kennara í forföllum. Ekki er hægt að reikna með að það takist í öllum tilvikum, enda er fyrirvari oft skammur. Ef fella þarf niður kennslu hjá yngri nemendum og skólabílar aka fyrr heim er gengið úr skugga um hvort einhver sé heima áður en þeir eru sendir heim úr skóla.

 

Forföll nemenda

Veikindi og forföll skal tilkynna að morgni á skrifstofu skólans eða með því að senda veikindatilkynningu í gegnum Mentor. Jafnframt eru foreldrar beðnir um að láta skólabílstjóra vita. Nemendaleyfi eru veitt til nauðsynlegra erinda. Mælst er til að leyfisbeiðnum sé haldið í lágmarki, jafnframt eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að fara fram á þær með góðum fyrirvara sé þess nokkur kostur. Foreldrar eru beðnir um að sækja um leyfi hjá skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra ef óskað er eftir leyfi meira en tvo daga, annars nægir að fá leyfi hjá umsjónarkennara eða ritara. Þegar nemendur koma í skólann að nýju eftir veikindi þurfa þeir að hafa heilsu til að taka þátt í skólastarfinu samkvæmt stundaskrá og til að vera úti í frímínútum.

 

Í 15. grein grunnskólalaga frá 1. júlí 2008 er kveðið á um slík leyfi:

Sæki foreldrar skólaskylds barns um tímabundna undanþágu þess frá skólasókn í einstökum námsgreinum eða að öllu leyti er skólastjóra heimilt að veita slíka undanþágu telji hann til þess gildar ástæður. Foreldrar skulu þá sjá til þess að nemandinn vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur.

Heimsóknir eftir skóla

Þegar nemendur fara í heimsóknir hver til annars eftir skóla, þurfa þeir að vera búnir að fá leyfi foreldra áður en þeir koma í skóla og kanna hjá bílstjóra hvort pláss er í skólabíl.

Nesti

Flestum er  það nauðsynlegt að fá hressingu í skólanum og er þá annað hvort hægt að hafa með sér nesti eða vera í ávaxtaáskrift í skólanum. Einnig stendur nemendum til boða að fá sér mjólkurglas í skólanum.  Mikilvægt er að nestið sé hollt, t.d. smurt brauð, ávöxtur eða grænmeti. Kökur, sætt kex og sætir drykkir eru ekki leyfðir. Þó geta kennarar gert undantekningu á því við sérstök tilefni. Gosdrykkir eða orkudrykkir eru aldrei leyfðir í skólanesti.

Opnun skóla

Skólahúsið er opið frá klukkan 7:45 og skólaliðar annast gæslu frá klukkan 8:00 þangað til skóli hefst kl. 8:15.

Óveður eða ófærð

Sú meginregla er höfð að leiðarljósi að aflýsa ekki skólanum vegna veðurs eða ófærðar. Þurfi hins vegar að fella niður skólahald vegna veðurs eða ófærðar er það auglýst í Ríkisútvarpinu svo fljótt sem verða má og eru upplýsingar lesnar inn á upplýsingasíma skólans 878-1603 og settar á heimasíðu skólans www.krummi.is.

Veður og færð í Eyjafjarðarsveit getur verið mjög mismunandi. Í hluta sveitarinnar getur verið ferðaveður á meðan ekki er um það að ræða annars staðar. Það er foreldra að meta hvort þeir sendi börn sín í skóla og eru þeir beðnir að tilkynna til skólans ef þeir telja nauðsynlegt að halda börnunum heima.

Þurfi að senda nemendur fyrr heim vegna veðurs eða veðurspár er gengið úr skugga um að foreldrar barna í 1.-4. bekk fái vitneskju um það.

Símtöl

Nemendur geta hringt hjá ritara ef nauðsyn krefur og foreldrar geta jafnframt komið boðum til barna sinna hjá ritara.

Skólabækur

Nemendur fá allar lestrarbækur að láni og eiga að skila þeim að notkun lokinni. Fara verður vel með bækurnar, því þær þarf að nota aftur. Verkefnabækur fá nemendur til eignar. Glati nemandi bók eða skemmi þarf hann að greiða fyrir hana.

Skólahúsnæði

Hver bekkur hefur sína heimastofu, 8. – 10. bekkur í kjallara íþróttahúss, 1. – 4. bekkur í suðurálmu og 5.- 7. bekkur í miðju hússins. Þar eru einnig skrifstofur, vinnurými kennara, kaffistofa starfsfólks og textílmenntstofa. Í kjallara íþróttahúss eru einnig tölvustofa, myndmenntastofa, bókasafn og félagsmiðstöð unglinga. Að auki er kennt í íþróttahúsi og sundlaug. Tónmenntastofa og heimilisfræðistofa eru á jarðhæð í vesturálmu heimavistarhúss ásamt sérdeild stúlkna frá Laugalandi og smíðar eru kenndar í kjallara norðurálmu heimavistarhúss.

Skólalóð

Leiksvæði nemenda eru kringum skólahúsið. Þar eru leiktæki og boltavellir. Nemendum er óheimilt að fara út fyrir skólalóðina á skólatíma nema með leyfi eða í umsjón kennara.

Skrifstofa

Skrifstofa skólans er opin frá kl. 7:50 – 16:00 mánud. – fimmtud. en til 15:00 föstudaga.

Útivist og klæðnaður

Nemendur í 1. – 7. bekk skulu fara út í frímínútur daglega. Einnig fer kennsla stundum fram utan dyra, ýmist á skólalóð eða í næsta nágrenni. Brýnt er að nemendur klæði sig eftir veðri hverju sinni þannig að þeir geti notið útivistarinnar í leik og námi.