Dagana 10.-12. nóvember voru þemadagar hjá okkur hér í Hrafnagilsskóla og var þemað að þessu sinni bækur. Hefð er fyrir því að sýna afrakstur þessara daga á veglegri hátíð á Degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember. Við höfum venjulega boðið aðstandendum og sveitungum að koma og horfa á og nemendur í 10. bekk hafa boðið upp á kaffihlaðborð og verið með ýmiss konar varning til sölu í fjáröflunarskyni fyrir skólaferðalagið. Í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu höfðum við ekki tök á því að halda hátíðina með hefðbundnu sniði. Þess vegna söfnum við hér saman afrakstri þemadaganna svo að sem flestir geti notið hans.

Yngsta stig

Ár hvert reynum við að hugsa út fyrir boxið og finna upp á einhverju sem við alla jafna gerum ekki í venjulegri yngri barna kennslu með nemendum okkar. Þar sem við erum almennt með skapandi og fjölbreytta kennsluhætti tekur smá stund að teygja ímyndunaraflið lengra. En í kennarahópi þar sem gróskan fær sín notið gerast oft undur skemmtilegir hlutir.

Við fengum yfirheitið „bækur“ í hendurnar og eftir nokkra umhugsun ákváðum við að „toga sögupersónurnar út úr bókunum“ og leggja áherslu á að lesa fyrir börnin og fá þeim skapandi verkefni. Við völdum sögupersónur íslenskra barnabókahöfunda sem nemendur okkar þekkja. Við skiptum 73 nemendum í 6 aldursblandaða hópa og hver hópur fékk þrjá fyrriparta í skólanum til að vinna fjölbreytt verkefni út frá sinni sögupersónu ásamt því að „toga hana út úr bókinni“ og koma henni fyrir á „framtíðarstað“ á yngsta stigs ganginum þar sem við vonum að sögupersónurnar ná að kveikja neista nemenda og löngun til að lesa allar þær bækur sem þessir undur skemmtilegu íslensku karakterar koma við sögu.

Hér sjáið þið 6 flipa með afrakstri hvers hóps fyrir sig bæði í myndum og fréttaþætti sem nemendur úr 4. bekk tóku að sér að útbúa fyrst að hátíðin gat ekki farið fram í íþróttahúsinu í ár, út af dottlu! Við vonum svo að þið gerið ykkur sérstaka ferð til okkar við fyrsta tækifæri og lítið þetta eigin augum, svona um leið og veiran fer að hopa. Njótið afrakstursins. Bestu kveðjur frá öllum á yngsta stigi ásamt Rebekku smíðakennara og Katrínu textílkennara sem fá sérstakar þakkir fyrir sitt framlag í þessa vinnu.

Miðstig

Undirbúningur Stóru upplestrarkeppninnar er hafinn

Undirbúningur 7. bekkjar hefst formlega fyrir Stóru upplestrarkeppnina með þessu myndbandi.

Á miðstigi unnu nemendur að rafbókargerð. Unnið var á þremur stöðvum.

Á einni var unnið með uppáhalds uppskriftir nemenda. Á þeirri stöð voru líka bakaðar kringlur og búið til heitt súkkulaði.

Önnur stöð fjallaði um uppáhaldsbækur nemenda á miðstigi þar sem krakkarnir útbjuggu bókarýni um sínar uppáhalds bækur og hönnuðu sitt eigið bókamerki.

Á þriðju og síðustu stöðinni settu krakkarnir saman lýsingar eða leiðbeiningar af leikjum og æfingum til þess að deila með öðrum.

Unglingastig

Á unglingastigi hafa nemendur smíðað, skapað, hannað, búið til pappír, skrautskrifað, hannað flíkur úr pappír, föndrað og svo ótal margt fleira. Að auki var sungið, lesið og hlustað á hljóðbækur og sögur.

Stop Motion

Á einni stöð á unglingastigi fengu nemendur eina klukkustund til þess að búa til myndbrot í „Stop motion formi (vantar gott íslenskt orð yfir fyrirbærið)“.

Myndbrotið varð að vera atriði úr bók. Það varð að lesa inn á það og helst semja lagstúf til að hljóðsetja myndbrotið.