Nemendur í 4. til 8. bekk Hrafnagilsskóla fengu góðan gest í heimsókn í dag þegar rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson, oft kallaður Ævar vísindamaður, leit við í skólanum.

Ævar ræddi við nemendur og sagði frá því hvernig bækurnar hans verða til. Hann fór yfir hvaða bækur hann hefur skrifað og hvernig hugmyndirnar að þeim kviknuðu.

Í lokin las Ævar upp úr nýjustu bók sinni, Skólastjórinn. Bókin fjallar um 12 ára drenginn Salvar sem sækir um stöðu skólastjóra og fær starfið fyrir mistök. Hann mætir til leiks með róttækar hugmyndir um skólastarfið, svo sem að bjóða upp á pítsu og kandífloss í hádegismat og hafa grís í hverjum bekk. Bókin hlaut nýverið Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur.

Eftir upplesturinn gafst nemendum tækifæri til að spyrja Ævar spurninga og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið. Þá skemmdi ekki fyrir að fá eiginhandaráritun í lokin.

Við þökkum Ævari kærlega fyrir skemmtilega heimsókn.