Tilgangur og markmið:

  • Að foreldrar og forráðamenn kynnist foreldrum bekkjarfélaga barna sinna.
  • Að foreldrar og forráðamenn heyri aðra foreldra tala um börnin sín, þeirra aðstæður, áhugamál og fleira.
  • Að umsjónarkennarar og annað starfsfólk eftir atvikum heyri foreldra og forráðamenn segja frá börnum sínum.
  • Að auka traust og samvinnu á milli heimila og skóla.
  • Að auka traust og skilning á milli foreldra.
  • Að hittast augliti til auglitis.

Foreldrastefnumót eru haldin í 1., 3., 5. og 8. bekk að hausti. Ef umsjónarkennari telur þörf á að halda foreldrastefnmót í öðrum árgöngum verður það gert með vitneskju stigstjóra og stjórnenda.

Formið er eins og í gæðahringjum, foreldrar og/eða forráðamenn mæta án barnanna og sitja í hring með umsjónarkennara og öðrum kennara sem umsjónarkennari velur.

Ávallt eru tveir kennarar á foreldrastefnumóti og stuðningsfulltrúi í viðkomandi bekk gefst kostur á að vera með á stefnumótinu.

Tímasetning er í lok dags, milli kl. 15:00 og 16:00, u.þ.b. sex vikum eftir skólabyrjun.

Kennarar auglýsa tímarammann og leggja áherslu á að virða hann í hvívetna.

Í upphafi er lögð áhersla á trúnað og tímarammann og mikilvægt er að halda tímaáætlun og vera með góða tímastjórnun. Annar kennarinn er tímavörður og passar að allir fái orðið og að skipta tímanum á milli foreldra. Gott að vera með litaspjöld og útskýra reglur á undan eða eitthvað kerfi sem heldur utan um tímann.

Í upphafi er hringur þar sem fólk kynnir sig eða kennari stjórnar leik til þess að brjóta ísinn.

Hlutverk beggja kennara er að halda fólki við efnið, afmarka umræðuefni og leyfa öllum að komast að, best er að fara tvo hringi.