Hrafnagilsskóli var í gær gestgjafi Lokahátíðar Stóru upplestrarkeppninnar en hún er fyrir nemendur í 7. bekk. Að þessu sinni tóku fimm skólar þátt: Dalvíkurskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskóli Fjallabyggðar, Hrafnagilsskóli og Þelamerkurskóli og voru tveir keppendur frá hverjum skóla. Það var hinn efnilegi Ari Logi Bjarnason úr Grenivíkurskóla sem bar sigur úr býtum. Fyrir hönd Hrafnagilsskóla kepptu þau Hafþór Bjarki Óttarsson og Birgit Elva Henriksdóttir og stóðu þau sig með miklum sóma.

Hátíðin sjálf fór fram í Laugarborg og var vel sótt af nemendum, kennurum og aðstandendum keppenda. Halldór Ingi Guðmundsson í 8. bekk sá um að kynna skáld keppninnar og um tónlistaratriði sáu þau Haukur Skúli Óttarsson, Ísak Fannar Heimisson og Halldóra Brá Hákonardóttir. Eins og áður sagði var það Ari Logi sem sigraði keppnina. Í öðru sæti var Angantýr Magni Guðmundsson einnig úr Grenivíkurskóla. Í þriðja sæti var Hjördís Emma Arnarsdóttir úr Þelamerkurskóla. Við óskum öllum keppendum til hamingju með árangurinn, þau skinu öll skært og stóðu sig frábærlega. 

Nemendur lásu í þremur umferðum, fyrst kafla úr bókinni Mömmuskipti eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Næst lásu þau ljóð eftir Emilíu Baldursdóttur á Syðra-Hóli. Emilía er kennaramenntuð og kenndi hér í sveit bæði við Hrafnagilsskóla og eins Laugalandsskóla sem var og hét. Eftir Emilíu liggur safn ljóða og dægurlagatexta og kunnum við henni miklar þakkir fyrir að hafa gefið leyfi til þess að ljóðin hennar yrðu lesin.

Í þriðju umferð lásu nemendur ljóð sem þeir höfðu sjálfir valið og æft. Hátíðin öll var hin ánægjulegasta, nemendur, kennarar og aðstandendur nutu þess að eiga góða stund saman og það er mikilvægt að styrkja samband þessa skóla.

Dómnefnd skipuðu þau Jóhanna Gísladóttir prestur, Benedikt Bragason fyrrverandi íslenskukennari við VMA og Margrét Aradóttir bókasafnsfræðingur á Bókasafni Eyjafjarðarsveitar.