Mánudaginn 9. september fóru nemendur í 6. bekk ásamt Elvu Díönu Davíðsdóttur og Skírni Má Skaptasyni í vettvangsferð á sjó með Húna II. Það eru hollvinir Húna II sem hafa undanfarin ár staðið fyrir þessum ferðum í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Samherja.
Í ferðinni fengu nemendur að kynnast sjávarútveginum, fræðast um lífríki sjávar og fræðslu um sögu Húna II. Einnig heimsóttu einhverjir skipstjórann í brúnni. Rennt var fyrir fiski eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og voru nemendur hæstánægðir með aflann sinn þrátt fyrir smá öldugang og kulda í lofti. Síðan var gert að fiskinum með tilheyrandi fróðleik og innyflin m.a. skoðuð. Að lokum var aflinn grillaður og borðaður áður en komið var í land.
Nemendur komu glaðir og rjóðir í kinnum til baka í skólann eftir þessa skemmtilegu og fræðandi vettvangsferð.
Í framhaldi af þessari ferð með Húna II og þeirri fræðslu sem nemendur fengu munu þeir síðan gera ritunarverkefni um sjávardýr.