Velferð nemenda verður m.a. best tryggð í góðu samstarfi foreldra og í góðu samstarfi milli heimila og skóla. Eins og segir í Aðalnámskrá grunnskóla þá ber skólinn ábyrgð á að slíkt samstarf komist á og að því sé viðhaldið. Við í Hrafnagilsskóla viljum axla þessa ábyrgð og gera enn betur. Þess vegna bjóðum við foreldrum á Foreldrastefnumót næstu tvær vikurnar. Stefnumótin gefa okkur tækifæri til þess að eiga góða stund saman þar sem foreldrar og forráðamenn kynnast hvert öðru enn betur í bekkjum barna sinna. Foreldrar segja frá sínu barni á meðan aðrir foreldrar hlusta á. Þeir taka þátt í umræðum sem snúa að hagsmunum nemenda, líðan þeirra, menntun, árangri og velferð. Við trúum því að það veiti börnunum okkar aukið öryggi að finna gagnkvæmt traust og virðingu milli hinna fullorðnu og samræmi í gildum og væntingum heima fyrir og í skólanum. Rannsóknir sýna einnig að það er verndandi þáttur gegn áhættuhegðun barna og ungmenna að foreldrar þekki foreldra bekkjarfélaga og vina barna sinna.

Athugið að þetta er tilraunaverkefni. Við treystum á virka hlutdeild foreldra og við hlökkum til að heyra ykkar raddir eftir þessa fundi, hvað gekk vel og hvað má betur fara.

Gerum þetta saman – barnanna okkar vegna.
Sjáumst í skólanum!