Verkefni nemenda í 6. bekk um þriðja þorskastríðið og varðskipaflota Íslands hefur vakið verðskuldaða athygli út fyrir veggi skólans. Eins og greint var frá hér á síðunni unnu nemendur glæsileg líkön af varðskipum úr endurnýttum efnivið.
Landhelgisgæsla Íslands birti nýverið færslu á Facebook-síðu sinni þar sem verkefninu var hrósað í hástert. Í færslunni kom fram að Gæslunni hefði þótt vænt um að sjá unga fólkið sýna sögunni jafn mikinn áhuga og virðingu og raun ber vitni. Varðskipin, sem nemendur smíðuðu „vopnuð límbyssum og þrautseigju,“ voru sögð stórglæsileg og frábærar eftirmyndir af flotanum.
Í kjölfar kveðjunnar bauð Landhelgisgæslan nemendum 6. bekkjar í sérstaka heimsókn. Nemendur fengu tækifæri til að fara um borð í varðskipið Freyju og skoða eftirlitsflugvélina TF-SIF.
Að því tilefni gáfu nemendur áhöfninni á Freyju höfðinglega gjöf en um var að ræða líkan af varðskipinu Freyju sem er eitt af þeim líkönum sem hópurinn vann að undanfarnar vikur og hefur verið til sýnis í skólanum.
Börnin fengu góða innsýn í störf áhafnanna og tækjabúnaðinn sem notaður er við gæslu- og björgunarstörf. Varðskipið Freyja er nýjasta skip Gæslunnar en hún kom til landsins árið 2021 og er sérstaklega útbúin til björgunar- og löggæslustarfa. Þá skoðuðu nemendur einnig TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, sem búin er öflugum ratsjám og myndavélum sem nýtast við eftirlit á hafinu og leit að fólki í neyð.
Hrafnagilsskóli er virkilega stoltur af nemendum sínum og þeim metnaði sem þeir lögðu í verkefnið. Það er gaman að sjá hvernig skólaverkefni getur undið upp á sig með þessum hætti og myndað skemmtilegt vinasamband milli bekkjarins og starfsfólks Landhelgisgæslunnar.
Hrafnagilsskóli þakkar Landhelgisgæslunni kærlega fyrir góðar móttökur.


