Í gær var mikið um að vera í Hrafnagilsskóla þegar menntabúðir Eymennt voru haldnar í skólanum. Viðburðurinn var sérstakur fyrir þær sakir að hann markaði 10 ára starfsafmæli Eymennt, en fyrstu búðirnar voru einmitt haldnar hér í Hrafnagilsskóla þann 29. september árið 2015. Það var því við hæfi að fagna tímamótunum á heimaslóðum.

Það var afar ánægjulegt að sjá hversu vel var mætt, en alls voru 130 þátttakendur skráðir til leiks frá 19 skólum í 10 sveitarfélögum. Breiddin í hópnum var mikil en þar mátti finna fulltrúa allra skólastiga, allt frá leikskólum, grunn- og framhaldsskólum og upp á háskólastig.

Hvað eru menntabúðir?
Í stuttu máli snúast menntabúðir um að kennarar og skólafólk komi saman til að læra hvert af öðru. Í stað hefðbundinna námskeiða deila þátttakendur eigin hugmyndum, kennsluaðferðum og verkefnum sem hafa reynst vel. Tilgangurinn er að efla faglegt starf skólanna og sækja nýjan innblástur sem nýtist beint í starfinu með nemendum. Markmiðið er að skólafólk deili reynslu sinni stutt og laggott, sem gefur tilefni til spurninga og líflegra umræðna, án þess að krafist sé sérfræðititla í viðfangsefninu. Menntabúðirnar eru opnar öllu áhugasömu skólafólki.

Eymennt hóf göngu sína sem samstarfsverkefni fjögurra skóla á Norðurlandi og var Hrafnagilsskóli einn af stofnendum þess ásamt Brekkuskóla, Þelamerkurskóla og Dalvíkurskóla. Í dag hefur verkefnið stækkað töluvert og er nú leitt af átta skólum og stofnunum, en Giljaskóli, Grunnskóli Fjallabyggðar, Oddeyrarskóli og Háskólinn á Akureyri hafa bæst í hópinn.

Milli kynninga var boðið upp á veglegar kaffiveitingar. Sá tími nýttist vel sem vettvangur fyrir þátttakendur til að hittast, spjalla og mynda tengsl, en samræður og reynslumiðlun í kaffihléum hafa frá upphafi verið talin einn mikilvægasti hluti menntabúðanna.

Við þökkum öllum þeim sem lögðu leið sína í Hrafnagilsskóla kærlega fyrir komuna og frábæran dag.