Í dag hélt Hrafnagilsskóli hátíð í íþróttasalnum í tilefni af Degi íslenskrar tungu. Skólinn er stoltur af þeirri hefð að halda upp á þennan dag með veglegri dagskrá. Í aðdraganda hátíðarinnar var hefðbundið skólastarf brotið upp með þemadögum þar sem nemendur á öllum stigum unnu að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum. Að þessu sinni var þemað Hrafninn, eða krummi, og var unnið í aldursblönduðum hópum á öllum stigum.
Á hátíðinni kynntu nemendur afrakstur vinnu sinnar. Nemendur í 7. bekk stigu á stokk og hófu formlegan undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina með því að lesa ljóð, málshætti og fróðleik um krummann. Fulltrúar yngsta stigs úr 4. bekk sögðu frá þeim fjölbreyttu krummaverkefnum sem unnin voru á sex mismunandi stöðvum og nemendur í 5. bekk kynntu undirbúning fyrir Bókmenntahátíð barnanna sem haldin verður í byrjun desember. Þá kynntu fulltrúar miðstigs þau verkefni sem unnin voru á þremur stöðvum.
Afrakstur vinnu unglingastigsins var sérstaklega fjölbreyttur. Á tískustöð var hannaður og saumaður fatnaður út frá þemanu og eldri flíkur t.d. nýttar en kynnar hátíðarinnar klæddust einmitt fatnaði sem þar var hannaður. Á myndlistarstöð var kafað dýpra í eiginleika hrafnsins, svo sem gáfur hans og glysgirni, og sú vinna notuð í listaverk. Einnig var búinn til „laupur“ úr náttúrulegum efnivið. Á leiklistar-, dans- og söngstöð ímynduðu nemendur sér krumma sem samfélagsmiðlastjörnu. Þar voru samdir nýir textar við þekkt lög og mun afraksturinn birtast í formi myndbanda á heimasíðu skólans á næstu dögum.
Þá unnu nemendur í 8. bekk að útgáfu skólablaðsins Hrafnsins. Tólf nemendur í ritstjórn sáu um blaðamennsku og ljósmyndun, auk þess sem hönnunarteymi sá um útlit.
Hátíðin náði hápunkti þegar allir nemendur skólans sungu saman þjóðlagið „Krummi svaf í klettagjá“ við undirleik Guðlaugs Viktorssonar, skólastjóra Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Formlegri dagskrá lauk svo með glæsilegum dansatriðum frá tveimur hópum nemenda í 1.-7. bekk sem hafa æft dans með Samherjum í vetur.
Að dagskrá lokinni gafst gestum kostur á að skoða glæsileg verk nemenda sem héngu uppi í salnum.
Þá voru nemendur í 10. bekk með glæsilegt kaffihlaðborð, sölu á ýmsum varningi og loppusölu í Hyldýpinu sem lið í fjáröflun sinni fyrir skólaferðalagið.
Við þökkum öllum sem komu og nutu dagsins með okkur kærlega fyrir komuna.






























