Litla upplestrarkeppnin hefur verið haldin í 15 ár á Íslandi en Hrafnagilsskóli tók í fyrsta skipti þátt í ár og nemendur í 4. bekk eru því frumkvöðlar. Markmið keppninnar er að bæta árangur í lestri, munnlegri tjáningu og framkomu og lögð er áhersla á virðingu og vandvirkni í samvinnu við foreldra.
Keppnin er undanfari Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin er í 7. bekk árlega. Litla upplestrarkeppnin fellur vel að læsisstefnu Hrafnagilsskóla, Menntastefnu Eyjafjarðarsveitar og áherslum og stefnu stjórnvalda.
Hrafnagilsskóli hefur tekið þá stefnu að skapa þá hefð að nemendur í 4. bekk taki þátt á hverju ári.
Sumum finnst skrýtið að nota orðið “keppni” þar sem enginn einn stendur uppi sem sigurvegari. Mikilvægt er að muna að keppnishugtakið í þessu verkefni felur einungis í sér að verða betri í lestri og framkomu í dag en í gær. Það er mikilvægt að geta bæði keppt að betri árangri og sett sér markmið án samkeppni við aðra en sjálfan sig.
Hjördís Óladóttir umsjónarkennari 4. bekkjar hafði veg og vanda að undirbúningi og framkvæmd keppninnar og óskum við henni og nemendum innilega til hamingju með frábæran árangur.