Nemendur í 7. bekk dvöldu í byrjun október í fjóra daga í Skólabúðum UMFÍ að Reykjum í Hrútafirði. Það voru spennt börn sem mættu með foreldrum sínum í skólann á mánudagsmorgni drekkhlaðin farangri. Sumir voru að stíga sín fyrstu skref í að ferðast á eigin vegum og því unnust margir stórir sigrar dagana sem við dvöldum að Reykjum.

Í Skólabúðum UMFÍ býður hreyfingin upp á alls kyns stöðvar og er dagskrá frá morgni til kvölds. Með okkur í búðunum voru nemendur frá Dalvík, Njarðvík og Garðabæ. Dagskráin náði hápunkti á miðvikudeginum þegar boðið var upp á tískusýningu þar sem strákarnir voru dressaðir upp í drag. Hrafnagilsskóli átti glæsilega fulltrúa í keppninni en þeir Ísak Fannar Heimisson og Fannar Nói Fannarsson höfnuðu í öðru sæti. Hápunkturinn var síðan diskótek þar sem krakkarnir dönsuðu frá sér allt vit.

Það voru glöð og örlítið þroskaðri börn sem héldu heim á leið síðla á fimmtudegi, reynslunni ríkari eftir ógleymanlega dvöl í Hrútafirði.

Hér eru nokkrar myndir frá ferðinni góðu.