Blásið var til 50 ára afmælishátíðar skólans á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember.
Öllu var tjaldað til á hátíðardagskrá þar sem kynnar af unglingastigi, í íslenskum þjóðbúningum, rifjuðu upp sögur úr skólastarfinu, fóru yfir forvitnilegar staðreyndir og kynntu dagskrárliði. Ein skemmtileg staðreynd er sú að 30% foreldra eru fyrrverandi nemendur skólans og það sama á við um hlutfall starfsmanna en þar er þriðjungur úr hópi fyrrverandi nemenda. Fjölbreytt atriði voru á dagskrá, söngur og tónlist, dans og upplestur.
Afrakstur þemadaga um tímann var til sýnis um allan skóla. Í íþróttasalnum voru til sýnis þrjú líkön af skólanum frá mismunandi tímabilum sem nemendur á unglingastigi unnu. Líkönin eru af skólabyggingunni árið 1972 (þegar skólinn var formlega vígður), árið 1992 (þegar barnaskólarnir þrír voru sameinaðir unglingaskólanum) og árið 2022.
Á göngum skólans og inni í kennslustofum voru til sýnis fjölbreytt verkefni nemenda, t.d. tímalína frá 1972-2022 sem nemendur á miðstigi unnu, verkefni um Vigdísi Finnbogadóttur, verkefni um barnastjörnur frá mismunandi tímum, myndir af nemendum eins og þeir ímynda sér að þeir líti út eftir 50 ár og svona mætti lengi telja.
Gömlu skólaspjöldin voru dregin fram og einnig voru skólablöð frá ýmsum tímum höfð til sýnis. Í tilefni af afmælinu bjuggu nemendur unglingastigs til skólablað sem er það fyrsta sem kemur út í meira en áratug.
Afmælisgestir voru hinir ánægðustu, gæddu sér á afmæliskökum sem nemendur á miðstigi bökuðu og áttu notalega stund í skólanum okkar góða.
Við þökkum gestum fyrir komuna og þökkum einnig samstarfið við starfsfólk Tónlistarskóla Eyjafjarðar sem aðstoðaði okkur við undirleik og æfðu með nemendum sínum metnaðarfull tónlistaratriði.