Föstudaginn 16. nóvember verður dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Hrafnagilsskóla. Í tilefni af 30 ára afmæli Tónlistarskóla Eyjafjarðar vinna fjórir skólar saman á þemadögum og sýna afraksturinn þennan dag. Skólarnir þrír auk Hrafnagilsskóla eru Þelamerkurskóli, Grenivíkurskóli og Tónlistarskóli Eyjafjarðar. Hátíðin hefst klukkan 13:00 í íþróttasal skólans og stendur til kl. 15:00.
Nemendur flytja í tali og tónum atriði sem tengjast þema dagsins sem að þessu sinni er ,,Hernámsárin – tímabilið 1939 – 1945“. Nemendur í 7. bekk hefja formlegan undirbúning fyrir Stóru upplestrarkeppnina með því að lesa upp ljóð.
Eftir fyrsta hluta dagskrárinnar verða opnuð þrjú kaffihús á miðstigsgangi þar sem boðið verður upp á lifandi tónlist, kaffi, djús og bakkelsi í anda þessa tímabils. Seldir verða “skömmtunarseðlar” á 1000 krónur. Fyrir hvern skömmtunarseðil er hægt að velja fjögur stykki af því sem í boði verður á kaffihúsunum en það eru kleinur, múffur, pönnukökur og hjónabandssæla. Kaffi og djús verður í boði skólanna. Hægt er að nýta skömmtunarseðlana á öllum kaffihúsunum. Skömmtunarseðlar verða til sölu hjá Nönnu ritara í næstu viku fyrir þá sem vilja kaupa þá fyrirfram. Eins verður hægt að kaupa þá á staðnum.
Einnig verður opinn bíósalur, hárgreiðslu- og snyrtistofa og fleira má sjá sem tengist tímabilinu. Að lokum hittast allir aftur inni í íþróttasal þar sem nemendur og kennarar Tónlistarskólans spila tónlist frá þessum tíma og nemendur sýna dansspor. Endað verður á því að frumflytja lagið ,,Allt það sem niðar“ eftir Daníel Þorsteinsson og Hjörleif Hjartarson en það var samið í tilefni afmælisins.
Ágóði af sölu kaffihúsanna fer í ferðasjóð grunnskólanna þriggja, auk þess verða nemendur 10. bekkjar í Hrafnagilsskóla með sölubás þar sem m.a. verða seldar gjafavörur frá Laufabrauðssetrinu og sælgæti.

Allir eru velkomnir og við hvetjum sveitunga til að heimsækja okkur í skólann þennan dag.