Með stolti tilkynnum við að Ólöf Ása Benediktsdóttir umsjónarkennari á unglingastigi í Hrafnagilsskóla er tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020 sem framúrskarandi kennari. Hér má finna umfjöllun um hana Ásu okkar á síðu Samtaka áhugafólks um skólaþróun. https://skolathroun.is/olof-asa-benediktsdottir/
Þess má geta að Hrafnagilsskóli hlaut Íslensku menntaverðlaunin árið 2007 fyrir framúrskarandi skólastarf.
Um Íslensku menntaverðlaunin:
Á alþjóðdegi kennara 5. október síðastliðinn tilkynnti Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hvaða skólar, kennarar og verkefni hljóta tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna árið 2020. Stefnt er að formlegri afhendingu verðlaunanna í nóvember.
Markmið þeirra er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í þremur aðalflokkum:
Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki, til skóla eða annarrar menntastofnunar, sem stuðlað hefur að menntaumbótum er þykja skara fram úr.
Framúrskarandi kennari. Ein verðlaun eru veitt í þessum flokki til kennara sem stuðlað hefur að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Framúrskarandi þróunarverkefni. Verðlaun fyrir framúrskarandi þróunarverkefni eru veitt verkefnum sem standast ítrustu gæðakröfur um markmið, leiðir, inntak, mat og kynningu, hafa samfélagslega skírskotun og nýtast til að efla menntun í landinu. Til greina koma verkefni sem tengjast skóla- eða frístundastarfi, listnámi eða öðru starfi með börnum og ungmennum og hafa ótvírætt mennta- og uppeldisgildi.