Hrafnagilsskóli er skóli í Eyjarfjarðarsveit. Hann er frekar stór miðið við sveitaskóla en frekar lítill miðið við aðra skóla til dæmis skólana á Akureyri. Í honum eru 150 nemendur og mér finnst það vera góður kostur vegna þess að þá þekkjast allir betur. Ég hef verið í Hrafnagilsskóla frá því að ég byrjaði í grunnskóla og þar hefur mér alltaf liðið vel. Það eru margir kostir við Hrafnagilsskóla og meðal annarra kosta er hversu mikil áhersla er lögð á að byggja upp sjálfstraust nemenda.
Í Hrafnagilsskóla er farið á samverustundir á morgnanna. Þá setjast allir saman á gólfið í litlu rými og byrja morguninn á því að syngja saman og ræða allskonar málefni. Á hverri samverustund er einn bekkur sem er með sérstakt atriði til þess að sýna fyrir framan hina nemendurna. Þetta finnst mér vera kostur vegna þess að þetta æfir nemendur í að koma fram en í Hrafnagilsskóla er lögð mikil áhersla á að nemendur fái æfingu í að koma fram sem er mikilvægur þáttur í að efla sjálfstraust þeirra og æfa þá í að standa með því sem þeir eru að gera.
Árshátíðir í Hrafnagilsskóla eru alltaf mjög flottar og er mikil vinna lögð í þær. Það eru haldnar þrjár árshátíðir á hverri vorönn; ein fyrir yngsta stig, ein fyrir miðstig og ein fyrir unglingastig. Árshátíðirnar fara þannig fram að tekið er fyrir leikrit sem nemendur sýna fyrir nemendur og foreldra. Eftir sýninguna eru bornar fram veitingar og fólk fær sér kaffi og spjallar saman. Síðan er dansað saman og Elín danskennari stjórnar dönsunum. Þegar dansinum lýkur fara allir heim nema nemendur á unglingastigi og þá er haldið ball.
Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í skólanum og mikil vinna er lögð í hann. Fyrir þennan dag eru hafðir þemadagar þar sem nemendur vinna allskonar skemmtileg verkefni sem eru svo sýnd fyrir foreldra á deginum. Hátíðin fer fram í íþróttahúsi skólans og þar er sett upp svið og raðað stólum fyrir áhorfendur. Aðstandendum nemenda er boðið á hátíðina og nemendur sýna verkefnin sem voru unnin á þemadögum og fleiri skemmtileg atriði. Svo býður tíundi bekkur upp á kökur og kaffi. Þarna fá nemendur tækifæri til þess að sýna verkefnin sín.
Ég er ánægður með að hafa fengið tækifæri til þess að vera í Hrafnagilsskóla því þar hefur mér liðið vel. Mér finnst ég hafa lært að koma fram fyrir fólk. Það skiptir mig miklu máli vegna þess að ég ætla mér að verða tónlistarmaður og þá skiptir miklu máli að vera öruggur þegar maður kemur fram. Ég hef fengið góða æfingu í því í Hrafnagilsskóla og ég er mjög ánægður með það.
Birkir Blær Óðinsson
10. bekk