Hér kemur ritgerð Sigrúnar Heklu en á dögunum efndi Lions hreyfingin til alþjóðlegrar ritgerðarsamkeppnis meðal blindra og sjónskertra ungmenna á aldrinum 11 til 13 ára. Sigrún Hekla sem er í 7. bekk fékk 1. verðlaun á Íslandi.
Friður, ást og skilningur
Ég heiti Sigrún Hekla og mér finnst leiðinlegt að heyra um stríð í heiminum. Ég bý í sveit, nálægt Akureyri á Íslandi. Hér er gott að eiga heima, hér er fallegt umhverfi. Í sveitinni minni eru fjöll sem heita Bóndi, Stóri og Litli Krummi og Súlur og hér er á og skógur. Í skóginum er lundur sem heitir Aldísarlundur og við skólakrakkarnir förum oft þangað þegar við erum í útiíþróttum. Fyrir jólin förum við þangað og fáum kakó og smákökur. Þegar skólinn er búinn á vorin förum við þangað og fáum hamborgara. Hér í Eyjafjarðarsveit er ekki stríð og öruggt að leika sér úti. Það er gaman í skólanum og ég þarf ekki að labba langt í skólann.
Ég hef séð myndir úr stríði í sjónvarpinu. Það er stríð í mörgum löndum sem er ekki gott. Ég hef séð myndir frá stríði í Úkraínu og Sýrlandi og ég hef séð myndir af fólki sem er að flýja stríð á flekum og sumir hafa sokkið. Börn sem flýja stríð er stundum munaðarlaus, foreldrarnir drukkna kannski eða deyja í stríðinu. Í flóttamannabúðum er lífið erfitt, það er kannski ekki skóli sem börnin geta gengið í og ekki nóg af mat og ekki pláss til að leika sér. Það er ekki gott að vera í flóttamannabúðum, það vantar kannski lyf og sjúkrahús. Ef börn eru með fötlun er enn erfiðara að vera í flóttamannabúðum, þar er mikið af fólki og það fyndist mér erfitt af því að þegar það eru margir heyri ég ekki eins vel. Ég les í iPad og það væri líklega ekki hægt að hafa hann í flóttamannabúðum.
Best væri að þingmenn og forsetar kæmu sér vel fyrir og fengju sér gott að borða og ræddu málin. Það er betra en að senda skriðdreka og berjast því það er svo leiðinlegt þegar margt fólk deyr. Fólk ætti að geta talað saman og leyst málin án þess að fara í stríð. Í bekknum mínum þá tölum við saman þegar vandamál koma upp. Einu sinni ákváðum við að hætta að nota orðið „þegiðu“ af því að sumir sögðu það of oft. Það hefur gengið vel. Í bekknum mínum eru bæði krakkar með fötlun og ófötluð, skemmtileg og pínu leiðinleg kannski en við reynum að vera góð við hvert annað og sýna skilning. Við lærum að virða hvert annað og myndum ekki vilja fara í stríð. Ef börn læra að sýna skilning og virða hvert annað þá vaxa þau upp og verða fullorðnir sem fara ekki í stríð heldur leysa málin með því að tala saman í stað þess að slást.
Sigrún Hekla Sigmundsdóttir
7. bekk