Hrafnagilsskóli er stór hluti af lífi mínu, hvort sem mér líkar það betur eða verr. Ástæðan er einföld. Ég fer í Hrafnagilsskóla á hverjum virkum degi og þar sem ég er búinn að vera í þessum ágæta skóla í átta ár þekki ég hann orðið frekar vel.
Ef ég horfi á mína skólagöngu þá finnst mér að það ætti að vera meira val t.d. þegar krakkar á miðstigi eru úti í kuldanum í frímínútum. Það að þurfa að hanga úti í hvaða veðri sem er var alveg ömurlegt og ég hugsa enn til þess með skelfingu.
Þegar ég var í sjöunda bekk voru samverustundir orðnar örlítið þreyttar. Að þurfa að sitja á hörðu gólfi í um 20 mínútur til hálftíma og fara síðan í kyrrðarstund í aðrar tvær mínútur. Er einhver ástæða að fara í kyrrðarstund? Mér fannst krakkarnir vera hvort eð er með hávaða og ekki að nenna þessu. Ég var allavega kominn með leið á samverustundunum og fannst þær tímasóun.
Mér finnst líka að 7. bekkur ætti kannski að vera aðeins meira með okkur á unglingastiginu. Þó mig langi ekkert sérstaklega að vera með þeim held ég að það sé gott fyrir bekkinn.
Það ætti líka að vera meira val á unglingastigi. Það er reyndar byrjað að vera með valgreinar fyrir 8.bekk, sem er alveg frábært (það voru allir brjálaðir í 9.bekk) en ég vil hafa aðeins öðruvísi val. Ég heyrði frá Andra vini mínum að honum fyndist að danska ætti að vera valgrein. Ég er sammála því. Ég hata ekkert dönsku og ef hún væri valfrjáls myndi ég alveg pottþétt velja dönskuna en ég vil samt hafa hana sem valmöguleika. Það eru fullt af öðrum tungumálum sem við munum mögulega þurfa að nota í framtíðinni og danskan er bara ein af þeim. Af hverju ekki þýsku, frönsku eða spænsku?
Það er eitt sem fer alveg rosalega í taugarnar á mér í skólanum en það er að þegar ég kem úr íþróttum á þriðjudögum höfum við í bekknum nánast engan tíma til að fara í sturtu og þurrka okkur. Mér þætti það þæginlegra ef við færum bara einu sinni í íþróttir á viku (áttatíu mínútur) og hafa þá frímínúturnar eftir í staðinn fyrir að fara tvisvar í viku og vera stutt í hvert skipti. Mér finnst betra að hafa tímana lengri og þá meiri tíma til að þrífa okkur í staðinn fyrir að fara tvisvar í viku og fá mjög lítinn tíma eftir.
Þó svo að ég sé að gagnrýna skólann nokkuð í þessum pistli finnst mér mjög gaman í Hrafnagilsskóla. Ég er alls ekki að segja að hann sé slæmur. Hrafnagilsskóli er frábær skóli á marga vegu en enginn skóli er fullkominn og mikilvægt er að benda á það sem betur má fara þegar tækifæri gefst.
Jón Smári Hansson,
9. bekk