Grímsey er eyja 60 km norður úr Eyjafirði. Í eyjunni búa um 70 manns og þar af eru 11 krakkar í Grímseyjarskóla. Skólagangan í Grímsey er aðeins 8 ár því þegar þú hefur lokið við 8. bekk þarft þú að flytja frá fjölskyldu þinni og klára grunnskólagönguna í landi í nýjum skóla sem þú hefur valið þér. Mig langar til þess að fjalla meira um þetta mál.
Sjálf var ég í Grímseyjarskóla fyrir rúmum tveimur árum og var það, eins og eðlilegt er, misjafnlega skemmtilegt. Þegar ég flutti fór ég í Síðuskóla en hvorki heimilið sem ég bjó á né skólinn hentaði mér. Eftir áramótin 2013 ákvað ég að prófa Hrafnagilsskóla, mér líkaði vel við hann og er ég enn í honum í dag.
Í Grímseyjarskóla eru ekki nema 2 kennslustofur þannig að 1. 2. 3. og 4. bekkur eru saman í annari stofunni og 5. 6. 7. og 8. bekkur saman í hinni stofunni. Kennslan er því ekki góð, mér fannst til dæmis námsefnið sem mér var kennt alltof auðvelt og eru því mikil viðbrigði fyrir krakka að fara í land í skóla þar sem þeim er kennt námsefni fyrir þeirra aldur. Einnig er mjög erfitt fyrir kennarana að kenna svona mörgum aldurshópum í einu þar sem enginn bekkur er með sama námsefnið.
Þegar ég flutti og fór í nýjan skóla fannst mér námsefnið mjög flókið. Ég þurfi mikið að læra heima, það þurfti ég eiginlega aldrei að gera í Grímsey, allt í einu þurfti ég að hafa fyrir náminu mínu og það reyndist mér mjög erfitt í fyrstu en það kom sem betur fer með tímanum.
Í raun og veru finnst mér það kostur að þurfa að flytja í land og fara í skóla. En það eru líka gallar sem fylgja því, til dæmis hvað krakkarnir eru ungir þegar þeir flytja að heiman, þeir fara í nýtt umhverfi og flytja inn á fólk sem þeir þekkja ekki vel í sumum tilvikum. Svo fær maður bara að fara heim 1 sinni í mánuði. Ég þurfti að kynnast nýjum kringumstæðum alveg sjálf.
Kostirnir eru þeir að það er miklu meira félagslíf hérna, kennslan er mun betri, þú ert með sama aldurshópi í sama námsefni. Það er meira um að vera, bekkurinn er fjölmennur hér, en í Grímsey var ég ein í bekk og því leiddist mér oft.
Þó það sé mjög erfitt að flytja og söknuðurinn sé mikill þá lít ég samt sem áður á þetta sem stórt og mikið verkefni sem ég þarf að takast á við. Þetta styrkir mig, gerir mig sjálfstæðari, ég þroskast og læri að takast á við öðruvísi aðstæður. Ég er þakklát fyrir allt sem ég hef lært frá því að ég flutti hingað.
Konný Ósk Bjarnadóttir
10. bekk