Fannar Smári Sindrason

Fannar Smári Sindrason

Á undanförnum mánuðum og árum hefur mikið verið rætt um umhverfisvæna bíla. Þegar talað er um umhverfisvæna bíla, kemur fyrst upp í hugann metan og rafmagn. Í Þessari grein verður eingöngu fjallað um metangas og metanbíla.

Metangas

Hægt að framleiða Metangas úr öllu lífrænu efni af yfirborði jarðar. Við niðurbrot lífræna efna, til dæmis matarleifa, losnar umtalsverð orka. Sem dæmi hefur SORPA unnið orkuna af sorphaugum og framleitt mikið af vistvænu ökutækjaeldsneyti. Árið 2011 var unnið metaneldsneyti sem samsvarar 2 milljónum bensínlítra og það metan nýttist á yfir 1000 ökutæki.

Í september 2014 opnaði metanafgreiðslustöð á Akureyri (sú fyrsta utan höfuðborgar-svæðisins). Það er Norðurorka sem vinnur hauggas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal við Akureyri en það er um 57% metan. Hauggasið er leitt að hreinsistöð, þar er það hreinsað og út kemur nánast hreint metan (98%). Því er síðan dælt á bílana, metanið brennur og út kemur koltvíoxíð. Með því að vinna metan úr gömlu sorphaugunum verður ekki einungis til eldsneyti heldur er líka verið að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum en metanið (sem annars hefði farið út í náttúruna) er 23x skaðlegra en koltvíoxíðið sem verður til við bruna metans í vélum.

Metanbílar

Á dögunum bættist við nýr metanbíll í Eyjafjarðarsveit af tegundinni Toyota Landcruiser. Hann var framleiddur sem bensínbíll en var fyrir nokkrum árum breytt þannig að í dag gengur hann bæði fyrir metani og bensíni. Að sögn Sindra Björns, eiganda bílsins, lofar bíllinn góðu. Hann nefnir að hann er með metankútana undir bílnum en ekki í skottinu eins og algengt er. Það er kostur vegna þess að þá getur bíllinn verið sjö manna og maður þarf ekki að fórna farangursgeymslunni. Einnig eru bifreiðagjöld á metanbílum mun lægri en á bílum sem ganga fyrir bensíni eða díselolíu og reiknar Sindri með að þau fari úr u.þ.b. 80.000 kr. í 10.000 kr. á ári fyrir þessa tegund bíls. Á bílnum eru tveir metantankar sem hvor um sig taka 15 rúmmetra af metangasi. Bíllinn getur keyrt 190 km á tönkunum tveimur og ef þeir tæmast tekur bensínið við án þess að ökumaðurinn verði þess var.

Það er greinilega mikið að gerast í þróun vistvænna bíla og ljóst að mikil framför hefur orðið á stuttum tíma. Auk metanbíla má einnig sjá rafmagnsbíla á ferðinni í Eyjafjarðarsveit.       Það verður spennandi að fylgjast með umhverfisvænum bílum í framtíðinni og fylgjast með fjölgun þeirra í Eyjafjarðarsveit.

 

 Fannar Smári Sindrason