Hrafnagilsskóli hefur undanfarin ár staðið fyrir söfnun fyrir eitthvert gott málefni í desember. Það eru fulltrúar nemenda á unglingastigi sem skipuleggja söfnunina og velja málefnið. Í ár verður stúlknaathvarf í Bólivíu styrkt í annað skipti en í fyrra söfnuðust rúmar fjörtíu þúsund krónur sem dugði til að kaupa skólatöskur handa öllum stúlkunum og afgangur var notaður til að gera við ísskáp sem var bilaður.
Á morgun þriðjudaginn 17. desember verða til sölu súkkulaðibitakökur til styrktar þessu góða málefni. Hver kaka kostar 200 krónur og gert er ráð fyrir einni köku á hvern nemanda í skólanum. Frjálst er að styrkja málefnið með hærri upphæð og nemendur á yngsta stigi fá köku þó svo að enginn peningur berist.
Að safna fyrir góðu málefni er hluti af lýðræðis- og mannréttindafræðslu Hrafnagilsskóla sem er einn af sex grunnþáttum skólastarfsins samkvæmt nýrri aðalnámskrá grunnskóla.