Á skóladagatalinu okkar er útivistardagur settur miðvikudaginn 5. september. Nemendur eiga að mæta í skólann á venjulegum tíma og heimferðir verða líka skv,. áætlun. Nemendahópnum verður skipt í þrennt; nemendur á unglingastigi ganga yfir Bíldsárskarð frá Þórustöðum og koma niður í Fnjóskadal. Skólabílar sækja þau og sundferð verður í boði þegar heim er komið.

Miðstigi er ekið að Sigtúnum og ganga þau upp í Bryðjuskál sem er uppi í fjallinu ofan við Munkaþverá. Þau ganga síðan heim fram hjá Munkaþverá og eftir árbakkanum, fá mat í mötuneyti og býðst svo að fara í sund áður en þau fara í kennslustofur.

MVC-005SYngsta stigi er ekið að Ytri-Tjörnum og þar verður gengið upp að Drangi sem er þar uppi í hlíðinni. Nemendum verður ekið að skóla í tæka tíð fyrir skólalok hjá þeim um hádegisbilið og skólavistun er með venjulegum hætti hjá þeim nemendum sem þar eru. 

Allir nemendur þurfa að hafa með sér nesti en nemendur unglingastigs fá hádegisnesti úr mötuneyti. Best er að hafa lítinn bakpoka til að geyma nesti og hugsanleg aukaföt. Mikilvægt er að klæða sig skynsamlega og vera á góðum skóm. Þessi áætlun er miðuð við að veður verði gott en verður frestað ef illa viðrar.

Myndin hér að ofan var tekin fyrir nokkrum árum í gönguferð á Hólafjall.