Í gær, fimmtudaginn 4. desember, fór fram Bókmenntahátíð barnanna í félagsheimilinu Laugarborg. Hátíðin var lokapunktur umfangsmikils samstarfsverkefnis fjögurra skóla á Norðurlandi; Hrafnagilsskóla, Valsárskóla, Reykjahlíðarskóla og Stórutjarnaskóla.
Nemendur í 5.–8. bekk skólanna hafa unnið markvisst að ritun og útgáfu eigin bóka. Ferlið hefur verið fjölbreytt þar sem nemendur hafa ekki aðeins skrifað sögur, heldur einnig séð um myndskreytingar og hönnun bókakápa. Til að setja verkefnið í raunverulegt samhengi stofnaði hver skóli sitt eigið bókaforlag og hönnuðu nemendur sérstök merki fyrir útgáfurnar.
Mikill fjöldi gesta lagði leið sína í Laugarborg til að berja afraksturinn augum. Dagskráin hófst á formlegri dagskrá með upplestri, umræðum og skemmtiatriðum, þar sem nemendur komu meðal annars fram og sungu.
Að dagskrá lokinni breyttist salurinn í markaðstorg þar sem gestir gátu gluggað í bækurnar, rætt við ungu rithöfundana og fest kaup á verkum þeirra, ásamt því að fá áritanir. Einnig var starfrækt kaffihús á staðnum þar sem boðið var upp á vöfflur og drykki.
Verkefnið hlaut styrk úr Sprotasjóði Rannís. Rithöfundarnir Berglind Erna Tryggvadóttir og Þórunn Rakel Gylfadóttir höfðu yfirumsjón með verkefninu og veittu bæði nemendum og kennurum faglega leiðsögn í gegnum ritunar- og útgáfuferlið.
Við þökkum öllum þeim sem mættu og studdu við bakið á nemendum kærlega fyrir komuna.


























