Undanfarnar vikur hafa nemendur í 6. bekk unnið að þemaverkefni sem tengist þriðja þorskastríðinu sem átti sér stað árin 1975–1976. Í verkefninu hafa nemendur kynnt sér söguna og þær aðstæður sem ríktu á þessum tíma. Sérstök áhersla var lögð á varðskipaflota Íslands eins og hann var skipaður í þorskastríðinu. Nemendur hafa unnið ötullega að því að smíða líkön af varðskipunum ásamt því að taka saman upplýsingar sem tengjast skipunum og hlutverki þeirra.
Hápunktur verkefnisins var þann 11. nóvember þegar Þórður Snæbjörnsson, fyrsti vélstjóri á varðskipinu Freyju, kom í heimsókn í skólann. Þórður fræddi nemendur um starfsemi Landhelgisgæslunnar og sagði frá hlutverki varðskipsins Freyju í dag. Í lok heimsóknarinnar skoðaði hann líkönin sem nemendur höfðu smíðað og lýsti hann yfir ánægju með framtak nemenda og þá vinnu sem lögð hefur verið í verkefnið.

