Íslensku menntaverðlaunin eru veitt árlega fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskólinn á Akureyri, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Háskóli Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samtök áhugafólks um skólaþróun ásamt fleirum hafa samstarf um verðlaunin.
Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennari, framúrskarandi þróunarverkefni, framúrskarandi iðn- eða verkmenntun og að auki eru veitt hvatningarverðlaun til þeirra sem stuðlað hafa að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.
Það er einstaklega ánægjulegt að kennari við Hrafnagilsskóla hafi hlotið tilnefningu í flokknum Framúrskarandi kennari árið 2025 en Hjördís Óladóttir á að baki farsælan kennsluferil og hefur starfað við Hrafnagilsskóla frá haustinu 2020. Í umsögn frá dómnefnd segir meðal annars:
Kennsla Hjördísar þykir hafa öll einkenni gæðakennslu. Hún skipuleggur fjölbreytt viðfangsefni og leggur áherslu á skapandi úrvinnslu og tekur ætíð mið af ólíkum þörfum, styrkleikum og getu nemenda sinna.
Við í Hrafnagilsskóla erum afar stolt af Hjördísi og þakklát fyrir að hafa hana í starfmannahópnum okkar. Stjórnendur og samstarfsfólk í Hrafnagilsskóla óska Hjördísi innilega til hamingju með tilnefninguna til Íslensku menntaverðlaunanna 2025.
Nánar má lesa um tilnefninguna á hér.