Við Hrafnagilsskóla starfa tvær vinkonur að austan, þær Arna Skaftadóttir og Heiða Rós Björnsdóttir. Þær starfa báðar í frístund, eru stuðningur á mið- og unglingastigi en þær hafa einnig leyst af á vorönn sem umsjónarkennarar í 2. bekk.
Arna og Heiða Rós eru að ljúka B.Ed. gráðu við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og eru því að skila lokaverkefni þessa dagana. Þær ákváðu að hanna námsspil og segja sjálfar: “ Síðustu þrjú ár í kennaranáminu höfum við alltaf haft þá hugmynd í huga hvernig mætti bæta íslenskuna og efla hana innan unglingastigs. Þegar kom að lokaverkefninu okkar í B.Ed.-náminu við Háskólann á Akureyri kviknaði sú hugmynd að þróa kennsluefni sem gæti aukið áhuga nemenda á íslenskunni. Íslenskan er gríðarlega mikilvæg í okkar samfélagi og framtíð hennar veltur að miklu leyti á því hvernig við veljum að kenna hana og varðveita. Með þetta í huga, okkar eigin reynslu af íslenskukennslu og einkum málfræði að leiðarljósi, ákváðum við að búa til íslenskt námsspil sem styður við íslenskukennslu á unglingastigi og gerir hana bæði skemmtilegri og áhrifaríkari. Spilið byggir á samvinnu, umræðu og fjölbreyttum spurningum sem tengjast málfræði, orðaforða, ljóðum, náttúru og fróðleik um Ísland. Spilið er jafnframt spurningaspil þar sem nemendur safna stigum fyrir rétt svör. Spurningarnar eru byggðar á hæfniviðmiðum aðalnámskrár grunnskóla og taka mið af þeim atriðum sem nemendur eiga að hafa náð tökum á við lok grunnskólagöngu. Markmiðið er að styrkja málvitund nemenda, efla orðaforða þeirra og þjálfa þau í að vinna saman og læra í gegnum leik. Spilið er hugsað sem gagnlegt og sveigjanlegt verkfæri í íslenskukennslu. Það má nýta sem ísbrjót eða hvatningu, sem hluta af skipulagðri kennslustund eða einfaldlega grípa í þegar tækifæri gefst til uppbrots í námi.”
Spilið hefur verið prufukeyrt í 8., 9. og 10. bekk í Hrafnagilsskóla, þar sem alls tóku nítján nemendur þátt. Viðbrögðin voru afar jákvæð. Allir sem tóku þátt sýndu virkan áhuga, mikla þátttöku og fengu tækifæri til að ræða íslenskuna á nýjan hátt. Nemendur lýstu því að þeir lærðu betur með þessu móti, að umræðurnar hjálpuðu þeim að skilja hugtök á dýpri hátt og að þau gætu munað betur hvað mismunandi málfræðiatriði þýddu. Sérstaklega var ánægjulegt að sjá hvernig spilið breytti viðhorfi margra nemenda til málfræði, sem áður hafði verið talin leiðinleg og þung. Með spilinu upplifðu þeir að íslenska getur verið fræðandi, lifandi og skemmtileg – og að það sé hægt að hafa gaman á meðan maður lærir. Arna og Heila telja að svona verkefni eigi fullt erindi í íslenskukennslu framtíðarinnar. Með því að blanda saman leik, samvinnu og skapandi hugsun, má ýta undir áhuga, efla færni og byggja upp jákvæðari viðhorf til móðurmálsins – og það skipti máli.
Arna og Heiða Rós, sem eru ungar að árum, segja enn fremur: “Það er ekki svo langt síðan við vorum sjálfar nemendur í grunnskóla, og við munum vel að málfræði var sá þáttur íslensku kennslunnar sem okkur langaði síst til að fást við. Hún virtist flókin, óaðlaðandi og fjarlæg raunveruleikanum. En í dag, sem kennaranemar og fullorðnar manneskjur, sjáum við hversu mikilvæg málfræði í raun er – bæði í daglegu lífi og í samfélagslegu samhengi. Að kunna að beygja orð rétt, setja saman málfræðilega réttan texta og tjá sig á skýran hátt skiptir miklu máli, ekki aðeins fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir menningu okkar og móðurmál. Við vitum líka að það skiptir máli að varðveita íslenskuna, hún er hluti af sjálfsmynd þjóðarinnar og það er á ábyrgð okkar allra að hlúa að henni. Þess vegna vildum við leggja okkar af mörkum, jafnvel þó það væri aðeins lítið skref. Þetta námsspil er okkar framlag til íslenskukennslu og það að segja okkar leið til að stuðla að jákvæðri þróun í námi, þar sem áhugi, gleði og raunveruleg færni fara saman.”
Við óskum þeim stöllum innilega til hamingju með frábært lokaverkefni og áhugahvetjandi og skemmtilegt spil. Það er ómetanlegt að taka þátt í menntun kennaranema og gefa þeim tækifæri til að þroskast og læra í styðjandi skólasamfélagi.