Við í Hrafnagilsskóla höfum áhyggjur af öryggi þeirra nemenda sem koma gangandi í skólann. Umferðarhraði er oft full mikill bæði í Hrafnatröð og einnig á bílaplani skólans. Við viljum leggja áherslu á mikilvægi öryggis gangandi vegfarenda í kringum skólann.
Annars vegar er um að ræða gangbrautina sem liggur yfir í íbúðahverfið og Aldísarlund. Þar er töluverð umferð á álagstímum og mikilvægt að ökumenn sýni sérstaka aðgát. Einnig má geta þess að önnur gangbraut er við leikskólann Krummakot og mikilvægt að börn og aðrir gangandi vegfarendur fari yfir götuna á merktum gangbrautum.
Hins vegar er svæðið norðan við skólann sem getur verið mjög varasamt. Þeim nemendum sem koma úr Bakkatröð er beint eftir upplýstum stíg en þurfa síðan að fara þvert yfir bílastæðið norðan skólans og það er mjög varasamt þar sem þar er mikil umferð og lítil lýsing.
Við hvetjum alla sem leið eiga um svæðið, jafnt ökumenn sem gangandi vegfarendur, til að sýna sérstaka varkárni. Foreldrar eru hvattir til að ræða við börn sín um mikilvægi þess að nota endurskinsmerki og fara varlega yfir götur og bílastæði. Ökumenn eru minntir á að sýna sérstaka aðgát á þessum svæðum, sérstaklega í myrkri og þegar færð er slæm.
Með sameiginlegu átaki getum við aukið öryggi allra sem fara um svæðið við skólann.