Íslensku menntaverðlaunin eru veitt árlega fyrir framúrskarandi skólastarf eða aðrar umbætur í menntamálum. Verðlaunin voru veitt við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 5. nóvember og gerð opinber nú fyrr í kvöld. Embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, Háskólinn á Akureyri, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, Háskóli Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samtök áhugafólks um skólaþróun ásamt fleirum hafa samstarf um verðlaunin.

Markmið Íslensku menntaverðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Verðlaunin eru veitt í fimm flokkum: Framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur, framúrskarandi kennari, framúrskarandi þróunarverkefni, framúrskarandi iðn- eða verkmenntun og síðast en ekki síst: Hvatningarverðlaun til þeirra sem stuðlað hafa að menntaumbótum sem þykja skara fram úr.

Það er einstaklega ánægjulegt að kennari og verkefnastjóri við Hrafnagilsskóla hafi hlotið hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna ásamt Bergmanni Guðmundssyni verkefnastjóra í upplýsingatækni við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri. 

 

Hans Rúnar og Bergmann hafa á undanförnum árum haft mjög jákvæð áhrif á skólastarf með stuðningi við kennara og nemendur um land allt með því að vera fyrirmyndir í notkun á upplýsingatækni í skólastarfi. Þeir hafa verið boðnir og búnir að aðstoða kennara sem leita til þeirra með fyrirspurnir og verið einstaklega ötulir við að deila hugmyndum um rafrænar

lausnir.

Við í Hrafnagilsskóla erum afar stolt af okkar manni og þakklát fyrir að hafa hann í starfmannahópnum okkar. Hans Rúnar hefur starfað við Hrafnagilsskóla síðan 2002 og hefur alla tíð verið frumkvöðull og hvatning fyrir okkur hin að takast á við tækninýjungar og áskoranir sem þeim fylgja með bros á vör. Það er ekki síst Hans að þakka að Hrafnagilsskóli er í fararbroddi þegar kemur að upplýsingatækni í skólastarfi. Stjórnendur og samstarfsfólk í Hrafnagilsskóla óska Hans Rúnari innilega til hamingju með hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna 2024.