Við í Hrafnagilsskóla erum afar stolt af því góða samstarfi sem við eigum við Tónlistarskóla Eyjafjarðar. Nemendum gefst kostur á því að stunda tónlistarnám á skólatíma og fá tækifæri til þess að koma fram á samverustundum og spila eða syngja.
Í morgun fengu nokkrir drengir af yngsta stigi slíkt tækifæri og slógu heldur betur í gegn. Þeir Adriel (trommur), Tumi (klarinet), Óliver (gítar) og Davíð (bassi) skipa hljómsveitina Gúgúgaga og undanfarið hafa þeir samið og æft frumsamið lag sem þeir síðan fluttu á samverustundinni í morgun.
Það tókst heldur betur vel til hjá drengjunum, mikil stemning myndaðist í Hjartanu og uppskáru þeir mikið lófatak að frumflutningi loknum.
Við þökkum drengjunum kærlega fyrir flutninginn og bíðum spennt eftir næsta stórsmelli frá hljómsveitinni Gúgúgaga.