Á haustönn mun unglingastig Hrafnagilsskóla vinna að fjölbreyttu þemaverkefni um íslenskan sjávarútveg. Nemendur vinna í hópum og fá tækifæri til að skoða sjávarútveginn frá ýmsum sjónarhornum. Markmiðið er að gefa nemendum innsýn í mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenskt samfélag og um leið tengja fræðin við raunveruleikann.
Nemendur vinna með margvísleg viðfangsefni. Þeir kynna sér tiltekna tegund eins og þorsk, ýsu, karfa eða loðnu og fjalla um eiginleika og nýtingu þeirra í íslenskum sjávarútvegi. Einnig kynna þeir sér íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og kanna starfsemi þeirra, framleiðsluferla og hlutverk þeirra í samfélaginu. Einnig er unnið með íslenskan orðaforða tengdan sjávarútvegi, málshætti og orðtök sem vísa í hafið og sjávarútveg.
Ein af áhugaverðari nálgunum verkefnisins var krufning á fiski, þar sem nemendur fengu tækifæri til að kryfja tegundir eins og þorsk, ýsu, karfa og ufsa. Krufningarverkefnið tókst með eindæmum vel og langflestir nemendur tóku virkan þátt, þrátt fyrir smávægilegar kvartanir vegna lyktarinnar.
Þemaverkefninu lýkur með kynningu nemendahópanna þar sem þeir munu kynna afrakstur vinnu sinnar fyrir foreldrum og öðrum áhugasömum. Kynningin verður haldin í skólanum og eru allir hjartanlega velkomnir til að koma og skoða þessa skapandi og fræðandi vinnu nemendanna.
Við hlökkum til að sjá ykkur!
Hér má svo sjá myndir frá krufningu á fiskum: