Deigludagur – skapandi stöðvavinna unglinga í fjórum grunnskólum

 

,,Getum við verið til klukkan fjögur næst og boðið fleiri skólum með!”

 

Miðvikudaginn 18. október tóku Þelamerkurskóli, Grenivíkurskóli, Valsárskóli og Hrafnagilsskóli sig saman og buðu nemendur á unglingastigi þessara skóla upp á sameiginlega stöðvavinnu þar sem skapandi skólastarf var í hávegum haft. Vinnan fór fram í Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit og tóku unglingarnir þátt í tveimur stöðvum af níu mögulegum sem þeir höfðu val um. 

Stöðvarnar voru fjölbreyttar og fengu skólarnir til liðs við sig fagfólk úr atvinnulífinu. Í ritlistarsmiðju kenndi Sesselja Ólafsdóttir um tengingu við mismunandi tegundir texta, persónusköpun og söguuppbyggingu. Þar æfðu krakkarnir sig í að skrifa bæði texta og stutt ljóð. 

María Pálsdóttir leikkona stýrði leiklistar- og spunahópi þar sem farið var í skemmtilega og krefjandi upphitunar- og hópeflisleiki, smakkað örlítið á spuna og svokallaður Draumaspuni var tekinn fyrir. 

Útistöð var í útikennslustofu skólans í Aldísarlundi þar sem grillað var brauð yfir opnum eldi og krakkarnir fengu kennslu í tálgun. 

Í heimilisfræðistofunni var boðið upp á að konfektgerð og útbjuggu nemendur döðlugott. 

Í tónmenntastofunni kenndi Guðlaugur Viktorsson undirstöðuatriði á hljóðfærið ukulele og spilað var undir á trommur og bassa. 

 Á vísindasmiðju glímdu nemendur við að hanna farartæki sem þurfti að bera brothættan farm niður ,,zip-line” línu. Núningskraftur, þyngdarkraftur og skriðþungi spiluðu lykilhlutverk en útsjónarsemi og lausnaleit voru ofurkraftarnir til að sigra þessa þraut.

Á listasmiðju fengu nemendur frjálsar hendur við að skapa listaverk að eigin vali úr alls kyns efniviði. Ímyndunaraflið var virkjað við að skapa skondin og skemmtileg listaverk.

Á fréttastöð kenndi Kári Liljendal Hólmgeirsson kvikmyndagerðarmaður undirstöðuatriði í kvikmyndagerð. Nemendur framleiddu frá grunni fréttaþátt um starfsemi Deiglunnar í anda sjónvarpsfrétta þar sem stýrt var úr myndveri og klippt saman í fagmannlegan fréttaþátt. 

Á annarri stöð var Pétur Guðjónssson með þjálfun í hljóðvarpsgerð og spreyttu nemendur sig á því að útbúa sitt eigið ,,podcast”.

Í mati nemenda kom fram að allur hópurinn vildi að svona dagar yrðu hluti af skólastarfinu og það var engin stöð eða verkefni sem þeir vildu sleppa. Unglingarnir vilja meira af svona vinnu, fleiri skapandi skóladaga þar sem boðið verður upp á fleiri stöðvar og einhverjir höfðu á orði hvort ekki væri hægt að lengja skóladaginn til fjögur þegar svona skemmtilegt skólastarf færi fram.