Nemendur Hrafnagilsskóla tóku þátt í árlegu Ólympíuhlaupi ÍSÍ við góðar undirtektir í dag. Hlaupið, sem áður hét Norræna skólahlaupið, hefur verið fastur liður í skólastarfi margra grunnskóla allt frá árinu 1984 og er ætlað að hvetja börn til reglulegrar hreyfingar og stuðla að betri heilsu og líðan.
Hlaupið hófst á skólalóðinni þar sem Bjarnfríður íþróttakennari stýrði upphitun fyrir alla aldurshópa áður en hlaupið var ræst. Nemendur í 1.-4. bekk hlupu 2,5 km leið, en nemendur í 5.-10. bekk fengu að velja á milli þriggja vegalengda: 2,5 km, 4 km eða 8 km. Að hlaupi loknu beið kókómjólk eftir hlaupurunum.
Nemendur hlupu samals 590 km og 172 nemendur tóku þátt í hlaupinu. Skólinn fær sent viðurkenningarskjal þar sem greint er frá fjölda þátttakenda og heildarvegalengd sem hlaupin var. Þrír heppnir skólar sem taka þátt í hlaupinu verða dregnir út og fá verðlaun í formi inneignar sem þeir geta nýtt til kaupa á vörum fyrir íþróttaiðkun nemenda.
Ólympíuhlaup ÍSÍ er árlegt framtak sem hefur það markmið að stuðla að heilbrigðari lífsstíl meðal grunnskólanema um allt land.