Þann 9. september sl. fóru nemendur í 6. bekk Hrafnagilsskóla í skemmtilega og fræðandi sjóferð með bátnum Húna II en þessar ferðir eru skipulagðar af Hollvinum Húna II í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Samherja.

Í ferðinni fengu nemendur einstakt tækifæri til að kynnast sjávarútveginum og lífríki sjávar á metnaðarfullan og skemmtilegan hátt. Sjávarlíffræðingur frá Háskólanum á Akureyri miðlaði til þeirra fróðleik um lífríki sjávar og sérkenni Eyjafjarðar. Nemendur fengu að skoða ýmsar sjávarlífverur og lærðu um mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt samfélag.

Hápunktur ferðarinnar var svo þegar rennt var fyrir fisk og nemendur fylgdust með því hvernig gert er að fiski með tilheyrandi fræðslu. Að lokum var aflinn grillaður og allir fengu að smakka áður en komið var að landi.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði og nemendur komu til baka reynslunni ríkari og með aukna þekkingu á þessari mikilvægu atvinnugrein okkar Íslendinga.

Hrafnagilsskóli vill nota tækifærið og þakka Hollvinum Húna II fyrir að bjóða nemendum upp á þessa fræðandi og skemmtilegu ferð.