Haustið 1971 hófst skólahald í Hrafnagilsskóla en skólinn var heimavistarskóli fyrir fjögur sveitarfélög; Svalbarðsstrandarhrepp, Öngulsstaðahrepp, Saurbæjarhrepp og Hrafnagilshrepp. Fyrsta skólaárið stunduðu 64 nemendur nám við skólann og fór kennslan fram á heimavist skólans. Ári seinna fluttist kennsla í nýtt kennsluhúsnæði og skólinn var formlega vígður 3. desember árið 1972.

Árið 1992 var allt skólahald sameinað á einn stað í Hrafnagilsskóla þó skólasel í Sólgarði hafi verið rekið fyrir yngstu nemendurna í Saurbæjarhreppi til ársins 1995.

Á fyrstu árum skólans hannaði Bolli Gústafsson merki skólans sem var grænt og gult með svartri hrafnsfjöður. Merkið var mikið notað, t.d. á umslög, bréfsefni, boli og námsmöppur. Fjöðrin þykir táknræn, bæði fyrir hrafninn og eins fyrir skrift og ritun.

Árið 2007 var Þórhallur Kristjánsson grafískur hönnuður fenginn til þess að hanna nýtt merki fyrir skólann, það er vínrautt og svart og hrafnsfjöðrin var látin halda sér.

Á vordögum 2025 fékk Ingibjörg Berglind Guðmundsdóttir grafískur hönnuður það verkefni að bæta þremur gildum skólans við merkið en þau eru; dyggðir, fagmennska og skilningur. Ingibjörg Berglind bætti gildunum við, upphafsári skólans og rammaði merkið frekar inn. Í framhaldinu mun hún myndskreyta gildi skólans og til verður myndræn framsetning á skólasýn Hrafnagilsskóla sem er: Allir hafa hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur.