Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um heim í lok september ár hvert en líkt og áður er það stofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and Agriculture Organization), sem hvetur til hátíðarhalda á þessum degi sem jafnframt markar upphaf hinnar árlegu teiknisamkeppni MS sem 4. bekkingar taka þátt í. Nemendur frá Hrafnagilsskóla senda ár hvert inn myndir og hafa oftar en ekki unnið til verðlauna.

Myndefnið er frjálst en það má þó gjarnan tengjast sveitinni, hollustu og heilbrigði. Hugmyndin er sú að börnin gefi ímyndunaraflinu og sköpunargáfunni lausan tauminn svo þau fái tækifæri til að sýna það sem í þeim býr. Í mars síðastliðnum voru veitt verðlaun fyrir 10 bestu myndirnar að mati dómnefndar. 

Alls bárust rúmlega 1.100 myndir í keppnina frá 62 skólum og 10 myndir voru valdar til verðlauna. Í ár fékk Snædís Embla Garðarsdóttir, nemandi í 4. bekk í Hrafnagilsskóla, verðlaun fyrir myndina sína og 40.000 kr. peningagjöf sem rennur í bekkjarsjóð 4. bekkjar. Við óskum Snædísi Emblu innilega til hamingju með verðlaunin og þökkum Einari Gíslasyni myndmenntakennara fyrir að taka þátt í keppninni og leiðbeina og hvetja nemendur til dáða.