Nemendur í 1. bekk í Hrafnagilsskóla taka þátt í hreyfiþjálfun með iðjuþjálfa einu sinni í viku, þar eru bæði fín- og grófhreyfingar þjálfaðar með fjölbreyttum æfingum. Áherslan í tímum er að styrkja jafnvægi, samhæfingu, víxlun og krossun yfir miðlínu líkamans en þessar æfingar hafa m.a. jákvæð áhrif á bóklegt nám.
Nemendurnir taka þátt í hópeflisleikjum til að efla m.a. félagsfærni, samvinnu, sjálfsstyrkingu og tilfinningalega þætti. Gerðar eru æfingar sem tengjast skynfærunum fimm sem eru sjón, heyrn, bragð, lykt og snertiskyn. Æfingarnar fela meðal annars í sér að snerta óvenjuleg efni og áhöld, lykta af mismunandi efnum og giska á lyktina, auk þess sem þau fá að prófa margt annað skemmtilegt.