Katrín Árnadóttir, móðir Ídu – 9 ára stúlku á Akureyri með Downs-heilkenni – ræddi fyrst við yngri nemendur á sal um heilkennið, orsök þess, helstu einkenni og hvernig daglegt líf með Ídu gengur fyrir sig. Nemendur sýndu mikinn áhuga og spurðu fjölmargra spurninga, þó margar þeirra beindust að leikvöllum sem Ída sækir.
„Börn í dag eru svo vön því að mörg þeirra eru með greiningu, þannig að þau sjá ekki endilega hvað er öðruvísi við barn með Downs-heilkenni,“ sagði Katrín. Þetta sannaðist þegar barn úr hópnum bað Katrínu að benda á Ídu á mynd þar sem hún er með ófatlaðri vinkonu sinni.
Í samtalinu við unglingana fór Katrín dýpra í efnið og ræddi meðal annars um að á Íslandi fæðast sífellt færri börn með Downs-heilkenni þar sem margir foreldrar velja að fara í skimun á meðgöngu. Í langflestum tilvikum þar sem í ljós kemur að barn beri heilkennið er meðgöngunni hætt. Katrín segir alltaf áhugavert að vekja siðferðislega umræðu hjá unglingum:
„Sérstaklega þegar þau gera sér grein fyrir því að skimun fyrir Downs-heilkenni er aðeins toppurinn á ísjakanum. Hvað gerum við þegar hægt verður að skima fyrir einhverfu, offitu eða kvíða – ætlum við líka að eyða þeim börnum?“
Að lokum hvatti Ólöf Ása Benediktsdóttir skólastjóri nemendur til að taka umræðuna lengra og ræða skimanir og siðferðileg álitaefni heimavið. Kennarar á unglingastigi munu halda umræðunni áfram og skoða nánar ábyrgð samfélagsins á því hvaða líf þykir vert að lifa.
Við þökkum Katrínu innilega fyrir komuna og bendum á vefsíðuna www.downs.is ef frekari spurningar vakna um Downs-heilkennið.