Í vetur hefur verið í boði spennandi valgrein fyrir nemendur á unglingastigi þar sem markmiðið er að undirbúa þau fyrir Skólahreysti. Nemendur hafa æft af miklum metnaði í keppnisgreinum Skólahreystis: Armbeygjum, hreystigripi, dýfum, upphífingum og hreystibraut. Mikil áhersla er lögð á styrktar- og þolæfingar til að byggja upp kraft og bæta frammistöðu. Undirbúningurinn hefur gengið vel og um 20 nemendur sækja tímana af miklum metnaði.
Áhugi nemenda jókst eftir frábæran árangur í fyrra þegar skólinn var litlu frá því að tryggja sér sæti í úrslitum keppninnar. Í byrjun skólaárs voru nemendur strax orðnir spenntir að hefja undirbúning, ákveðnir í að gera enn betur í ár og tryggja sér sæti meðal þeirra bestu. Með þeim dugnaði og eldmóði sem nemendur hafa sýnt eru allar líkur á að árangurinn verði ekki síðri í þetta skiptið.

Skólahreysti hefur jákvæð áhrif á nemendur, bæði líkamlega og andlega. Þeir styrkjast í þreki, þoli og vöðvastyrk, en um leið eykst sjálfstraust þeirra, samheldni innan hópsins og færni þeirra til að setja sér markmið og vinna að þeim. Einnig læra nemendur að takast á við áskoranir, halda ró sinni undir álagi og byggja upp jákvætt keppnisskap sem nýtist þeim í ýmsum aðstæðum, ekki aðeins í íþróttum.

Skólahreysti verður haldið í Íþróttahöllinni á Akureyri þann 30. apríl næstkomandi. Nemendur eru gríðarlega spenntir fyrir keppninni og ætla sér stóra hluti. Við hvetjum alla til að mæta og styðja við bakið á þessum flottu og öflugu ungmennum!