Eins og fram kemur á skóladagatalinu stóð til að skíðaferðin okkar í Hlíðarfjall yrði þriðjudaginn 18. mars. Þar sem veður og snjóskortur setja strik í reikninginn ætlum við að færa ferðina fram til fimmtudagsins 13. mars og vonumst til þess að geta átt góðan dag í Fjallinu þá. Við vitum að aðdragandinn er stuttur en þorum ekki að bíða fram yfir helgina þar sem spáð er hlýindum og óvíst hvort nægur snjór verði þá.
Við þurfum að hafa hraðar hendur og biðjum þá foreldra og forráðamenn sem ætla að leigja svigskíði eða bretti fyrir börnin sín í skíðaleigunni í Hlíðarfjalli að panta búnaðinn sem fyrst og ekki seinna en fyrir hádegi miðvikudaginn 12. mars. Til þess að panta þurfa foreldrar að senda tölvupóst á hrafnagilsskoli@krummi.is þar sem fram kemur að barnið megi panta sér skíði eða bretti, hvort barnið sé byrjandi eða vant og hver skóstærð þess er, það er afar mikilvægt að allar þessar upplýsingar komi fram.
Þetta er gert til þess að fljótlegra verði að fá skíðin/brettin afgreidd þegar við komum á staðinn.
Upplýsingar þurfa að berast til skólann helst í dag eða á morgun og eigi síðar en fyrir hádegi miðvikudaginn 12. mars. Greiðslu fyrir búnaðinn þarf að millifæra á 565-14-211, kt. 691018-0320 þegar pantað er og senda tölvukvittun á nanna@krummi.is
Annar möguleiki er að leigja búnað hjá Skíðaþjónustunni í Fjölnisgötu og ef foreldrar ætla að gera það hafa þeir samband beint þangað.
Verð eru eftirfarandi:
- Skíði/bretti í Hlíðarfjalli kr. 3.320.
- Skíði/bretti í Skíðaþjónustunni kr. 3.500 fyrir börn (5.500 fyrir fullorðna). Það þarf að sækja búnaðinn til þeirra daginn áður og taka fram að barnið/unglingurinn sé nemandi í Hrafnagilsskóla.
Við ætlum að fara að morgni og koma til baka að skólanum um kl. 14:00. Skólabílar keyra alla, nesti kemur úr mötuneyti og árshátíðarsjóður nemenda greiðir lyftugjöld. Starfsfólk skólans segir byrjendum til eftir bestu getu en gott væri ef einhverjir foreldrar sjá sér fært að mæta og aðstoða. Nemendur geta haft með sér aukanesti og mega koma með peninga til að versla í veitingasölunni í Hlíðarfjalli. Allir þurfa að vera hlýlega klæddir og það er skylda
að vera með hjálma en þá er hægt að fá lánaða í Hlíðarfjalli. Það er leyfilegt að koma með sleða með sér og renna sér í nágrenni við ,,skíðahótelið“.
Foreldrar þurfa að tilkynna umsjónarkennara ef börn þeirra eiga ekki að ferðast með skólabíl. Að sjálfsögðu eru allir foreldrar og forráðamenn velkomnir með en sjá þá sjálfir um skíðabúnað sinn og mat.
Frístund verður með eðlilegum hætti eftir skíðaferðina.
Með góðri kveðju,
skólastjórnendur