Við í Hrafnagilsskóla erum svo lánsöm að í nærsamfélagi okkar finnum við fyrir miklum velvilja í garð skólans. Gott dæmi um þetta er áhugi bændanna á Hrafnagili, þeirra Berglindar Kristinsdóttur og Jóns Elvars Hjörleifssonar, til að bjóða nemendahópum í heimsókn til sín. 

Að undanförnu hafa nemendur í 10. bekk verið að læra um erfðafræði í kennslustundum í náttúrufræði og eins og stundum áður heyrðist spurningin: ,,af hverju þarf maður að læra þetta?”. Kennarinn svaraði því til að góður bóndi þurfi að hafa a.m.k. grunnþekkingu í erfðafræði. Svipur nemenda benti til þess að þeir ættu erfitt með að trúa þessari fullyrðingu kennarans. Það var því bara eitt í stöðunni, að sýna og sanna að erfðafræði er mikilvægur þáttur í landbúnaði og þá er gott að geta leitað til fyrrnefndra heiðurshjóna.

Úr varð að nemendurnir fóru í heimsókn á Hrafnagil þar sem þeir fengu m.a. að taka lífsýni úr kálfum og fengu fræðslu um verndandi arfgerðir gegn riðuveiki í sauðfé. Heimsóknin var afar fræðandi og skemmtileg og nú bíðum við eftir niðurstöðum frá Matís og í framhaldinu munum við ræða hvaða gagn það er fyrir bændur að fá þessar upplýsingar.

Að lokum langar okkur til að þakka Berglindi og Jóni Elvari fyrir heimboðið.